Ef þú ert bara 12 ára þá ertu enn að stækka, mjög hratt stundum og hægar inn á milli.
Alls ekki reyna að fara í einhvers konar megrun. Það er alls ekki hollt fyrir krakka á þínum aldri nema að þau séu mjög feit.
Kjörþyngd er ekki beinlínis til fyrir 12 ára krakka. Betra er að miða við stærð og mýkt bumbunnar :) Ég var svona 35 kíló 12 ára. Hjalti Úrsus æskuvinur minn var sennilega 70. Báðir vorum við í góðu formi, hvor á sinn hátt.
Hins vegar er aldrei of snemmt að temja sér góðar fæðuvenjur og læra að þjálfa sig.
Borðarðu mikið sælgæti, ís, snakk, kex og þess háttar? Drekkurðu mikið gos? Reyndu að venja þig á það að gera það sjaldnar, t.d. bara um helgar. Fáðu foreldra þína í lið með þér í þessu.
Reyndu að venja þig á að borða sem fjölbreyttastan mat. Næstum allur matur er góður ef maður venst honum. Lærðu að meta hollan mat eins og grænmeti, ávexti og fisk.
Finndu þér svo íþróttagrein sem þú hefur gaman af. Þær eru svo margar til að þar ætti að vera eitthvað við allra hæfi. Það þarf ekki að vera fótbolti. Veggjaklifur, snjóbretti, lyftingar, reiðmennska, badminton og skylmingar eru líka íþróttir.
Ég vona að þetta hjálpi eitthvað.