“Of mikið”?
Já, ef þú lyftir “of mikið” þá er það að sjálfsögðu of mikið.
En það er ekki málið er það? Allir þurfa að læra að reyna hæfilega á sig til að bæta heilsu sína, styrk, úthald, lipurð, snerpu o.s.frv.
Vissulega er hægt að meiðast á æfingum. Ef þú gerir æfingar rangt eða tekur þyngdir sem þú ræður ekki við þá geturðu skaddað þig. Þar skiptir ekki máli hvort þú ert að pína þig í 15 reps eða 3. Rangt framkvæmdar æfingar eru hættulegar, punktur.
Unglingar og krakkar, geta haft mjög gott af, já, jafnvel erfiðum styrktaræfingum, ef þær eru rétt gerðar og viðkomandi hefur fulla stjórn á þyngdinni alla leið.
Ég læt byrjendur aldrei taka meira en 12 reps og yfirleitt ekki meira en 8. Það er mín reynsla að þar fer athyglin að flögra, menn fara að hugsa um annað en að gera æfinguna hárrétt. Fólk fer að hugsa um sársaukann, hvort þetta fari ekki að verða búið, hvort það þurfi endilega að gera þetta svona oft …. bang ….. meiðsli.
Þegar alvöru styrktaræfingar eru gerðar þarf að einbeita sér allan tímann. Þetta verður erfiðara eftir því sem gerð eru fleiri reps.
Varðandi aldurinn, þá hefur margoft verið sýnt fram á að styrktarþjálfun er ekki hættuleg börnum ef hún er rétt framkvæmd, “eyðileggur” ekki vöðvana og dregur ekki úr vexti.
Það sem skemmir, eyðileggur og skaðar er það sem ég sé 14-17 ára stráka gera á hverri einustu líkamsræktarstöð:
- að pína út úr sér aukareps þó að þeir geti ekki gert æfinguna rétt lengur.
- að sveifla líkamanum og hnykkja til að ná upp þyngdum sem þeir ráða ekki við.
- að fara grunnar hnébeygjur með alltof mikla þyngd í staðinn fyrir að beygja rétt með þyngd sem þeir ráða við.
- að gera bekkpressur með olnbogana útog stöngina upp við barka
og fleira og fleira. Það skaðar og skemmir, ekki að lyfta lóðum.