Í parkódíni eru virku efnin kódein og parasetamól. Kódein er ávanabindandi efni, skylt ópíum, og umbreytist (ca. 10%) í morfín í líkamanum. Líkaminn myndar visst þol (mismikið og misfljótt) gegn kódeini, og þeir sem eru háðir þurfa venjulega stærri og stærri skammta, til að fá vímu/vellíðun. Af langtíma misnotkun á kódeini eru eftir því sem mér skilst ýmsir skaðar á taugakerfi algengastir. Líklega er þó parasetamólið varasamara, vegna þess að það er hlutfallslega mun meira af því í parkódíninu, og þegar þoli hefur verið náð á kódeinið eru þeir skammtar af parasetamóli sem viðkomandi neyðist til að taka til að ná vímu, oft lifrarskemmandi (og stundum nýrna, þó mér skiljist að það sé umdeildara) til lengdar.
Að mínu viti á fólk, sem hefur auðsýnt merki um fíkn, mjög erfitt með að draga úr neyslu sjálft, og líkurnar á því að það detti aftur í neyslu við t.d. áföll því miður talsverðar. Ef ég væri í þínum sporum myndi ég lýsa þeim áhyggjum sem ég hefði, en reyna að varast gagnrýni, eða setningar sem gætu orsakað vonleysi eða vanlíðan hjá vinkonunni. Best væri að sjálfsögðu ef hægt er að fá hana til að leita sér hjálpar hjá lækni eða öðru heilbrigðistarfsfólki. En persónur eru auðvitað mismunandi og þú veist áreiðanlega betur en ég hvað er líklegt til árangurs.