Já, armbeygjur ef þú getur ekki eða vilt ekki gera bekkpressu.
Eftir tiltölulega skamman tíma ættirðu að geta meira en 10-20 armbeygjur í einu og eftir það gera þær minna og minna gagn. Ef þú getur 30 eða meira gera þær lítið sem ekkert fyrir þig og þá þarf að breyta þeim til að gera þær erfiðari (þyngja).
Til að láta þær taka meira á brjóstvöðvum (og minna á þríhöfða) má breikka bilið milli handanna.
Til að gera þær erfiðari má hækka undir fótunum. Því hærra með fæturna, því þyngri er armbeygjan.
Hámark þess er að gera armbeygjur standandi á höndum, en reyndar reyna þær minna á brjóstvöðvana og meira á axlir.
Einnig má þyngja með því að setja þyngd, bækur eða lóð, í bakpoka og gera armbeygjur þannig.
Svo má auka sprengikraftinn með því að spyrna frá gólfi, jafnvel klappa í loftinu.
Að lokum er mér skylt að bæta þessu við:
Þú getur alltaf styrkt þig, en þú bætir ekki á þig vöðvamassa nema að borða fleiri hitaeiningar en þú brennir.