matarræði
Til að grennast eða halda líkamsþyngdinni í skefjum þurfa flest okkar að breyta mataræðinu á einhvern hátt. Oftast þýðir þetta að við skerum niður fituríkar fæðutegundir og einnig aðrar óþarfa hitaeiningar sem koma til að mynda úr viðbættum sykri og áfengi. Til að ná varanlegum árangri er lykilatriði að þessar breytingar séu til frambúðar. Við þurfum næringu til að lifa og það að borða er líka ein af lífsnautnunum. Það er margsannað að matarkúrar virka ekki enda byggjast þeir á miklum breytingum og miklum niðurskurði hitaeininga í stuttan tíma. Þegar kúrinn er svo á enda fer fólk langoftast í sama farið og áður og kílóin sem fóru byrja fljótt að koma til baka. Algengt er að fólk bæti á sig fleiri kílóum en tapað var í megrunarkúrnum eftir að honum er hætt. Þetta er stundum kallað jó-jó megrunarmunstur. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk sveiflast mikið niður og upp í líkamsþyngd, safnast fitan frekar á kvið og kring um líffærin í kviðarholinu en sú fita er mun hættulegri heilsunni og ýtir undir þróun fylgikvilla eins og sykursýki, hárrar blóðfitu og hjarta- og æðasjúkdóma.