Þakka þér fyrir :)
Ég greindist með félagsfælni núna í febrúar á þessu ári. Því fylgir kvíði, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir, fæ samviskubit yfir öllu, fresta öllu…
Ég hef verið svona síðan ég man eftir mér en hef aldrei þorað að tala við neinn um þetta, allavega ekki af neinu viti. Ég hélt bara að ég væri ímyndunarveik og væri sú eina í heiminum sem væri svona.
Ég hef alltaf áhyggjur af hvað fólk hugsar um mig og hvað ég segi og haga mér við fólk svo ég gat ekki hugsað mér að leita mér hjálpar. “Hvað ef læknirinn segði að ég væri bara aumingji, hvað ef hann segði að ég væri bara ímyndunarveik, hvað ef hann segði að ég vildi bara láta vorkenna mér, hvað ef, hvað ef, hvað ef”
Núna í febrúar síðastliðnum var ég að læra undir próf í skólanum mínum, ég höndla skólann ekki voða vel vegna álags og brotnaði niður, þurfti að fara til læknis til að fá vottorð og eftir að hafa hugsað upp trilljón mismunandi lygasögur ákvað ég að segja sannleikann, hann benti mér strax á geðlækni og pantaði tíma fyrir mig.
Ég hafði leitað mér upplýsinga á netinu og einhverjum stað þar sem ég gæti spurt einhverja nafnlaust hvort það gæti verið eitthvað að mér og hvort einhver kannaðist við það sama. Ég senti m.a fyrirspurn á doktor.is ( fyrir um 9 mán núna og ekkert svar enn komið ).
Ég fann svo eftir að ég greindist ( vissi ekki einu sinni að félagsfælni væri einhver sjúkdómur áður ) félagsfælnigrúppu á yahoo, ég kunni ekki nógu vel við yahoo viðmótið þar svo ég og ein stelpa gerðum grúppu á MSN og ircrás fyrir félagsfælna en við vildum gera betur og ákváðum að búa til þessa síðu og stofna ircrás út frá henni.
Ég vonast til að geta hjálpað fólki með henni, ég veit að ég hefði sko viljað sjá svona þegar ég var yngri, líf mitt hefði trúlega orðið betra….
Hmm kannski full langt og ítarlegt svar, en ég á það til að blaðra of mikið um þetta málefni ;-)