Eru ekki margir hérna sem eru alltaf á leiðinni í líkamsrækt, út að skokka, breyta mataræðinu, hætta að reykja, betrumbæta svefnvenjur sínar og þar fram eftir götunum. Ég er ein af þeim. Reyndar þarf ég ekki að hætta að reykja. Því að sem betur fer var ég svo gáfuð að byrja ekki. Ég á svo sem ekki við offituvandamál að stríða en ég held að mér liði betur ef að ég reyndi nú að stunda einhverja holla hreyfingu öðru hvoru. Svo með hækkandi aldri þá hægir sennilega eitthvað á brennslu líkamans á hitaeiningum, þannig ef maður passar sig ekki þá kannski springur maður út einn daginn. Vaknar upp við vondan draum, orðin 150 kg, aðeins ýkt kannski. Það lengsta sem ég hef enn komist á líkamsræktarstöðvunum er einn prufutími en svo er alltaf svo mikið að gera hjá manni að maður kemur sér aldrei aftur. Ég hef líka reynt að stunda sund en það vill líka fara fyrir ofan garð og neðan. Svo er ég líka alltaf á leiðinni út í göngutúra. Að skokka kemur ekki til greina hjá mér. Ég misstíg mig alltaf, þannig að ég gafst upp á því fyrir mörgum árum. Svo er ég alltaf að reyna koma mér í rúmið fyrir klukkan 24 af því að ég þarf minnst 9 tíma svefn til að vera almennileg, en það gengur mjög illa. Alltaf skal ég freistast til að gera allt annað en að fara sofa þó að ég sé drulluþreytt þá kem ég mér ekki í rúmið fyrr klukkan 1 eða 2 á næturnar. Ég er sem sagt forfallin næturhrafn hef verið frá því að ég man eftir mér. Ég fer samt aldrei í vinnu fyrr en kl 11 og er að skreiðast á fætur kannski 10 og mér finnst það svo lítill tími til að slaka á og borða morgunmat með dóttur minni. Þess vegna vil ég fara á fætur helst 7 eða 8 á morgnana. Enda byrjar dóttir mín í skóla næsta vetur þannig að þá þýðir ekkert að dóla í rúminu til klukkan 10 eða vaka langt fram á nótt. Þetta er náttúrulega ekkert annað en sjálfsagaleysi og ég þarf að fara sparka í rassinn á mér og framkvæma í staðinn fyrir að tala um hlutina. Er ekki þannig ástatt fyrir fleirum en mér? Heilsan er jú einn af stóru steinunum í krukkunni minni en samt gefur maður sér ekki tíma fyrir hana. Því hvað gerir maður án góðrar heilsu?
Kveðja PiCatChyou (ein sem ætlar að fara aga sjálfa sig)