Við skulum líta á nokkur meginatriði sem alltaf er gott að hafa í huga þegar farið er að megra sig með heilbrigði og vellíðan í huga.
Hitaeiningar skipta máli
Hitaeininga eru alltaf hitaeiningar og ef þú borðar of mikið þá fitnarðu. Litlu skiptir hvaðan þær koma. Til þess að losna við aukakílóin verðurðu að borða minna af hitaeiningum en þú brennir dags daglega og auka æfingar og hreyfingu eða bæði. (Sem oftast er best að gera.)
Forðastu að svelta þig
Þó að þú minnkir hitaeiningarnar þarf það ekki að þýða að þú þurfir að svelta þig. Það sem gerist þegar þú sveltir þig fer líkaminn að brjóta niður amínósýrur sem hann notar fyrir orku þannig að þú missir vöðva en ekki bara fitu og grunnefnaskipti þín hægja á sér svo að líkaminn sparar fituna með því að brenna færri hitaeiningum.
Örvaðu efnaskiptin með æfingum
Æfingar auka þann hitaeiningafjölda sem líkaminn brennir og hraðann sem þeim er brennt á. Fyrir flesta er það ekki fjöldi hitaeininganna sem brennt er á meðan æfingu stendur sem skiptir megin máli, heldur er það aukningin á hraða efnaskiptanna sem verður til þess að heilmikið af fitu er notuð í orku það sem eftir er dagsins! Þetta á sérstaklega við um þá sem halda í við sig í mat, því það kemur í veg fyrir að efnaskiptin hægi á sér.
Það kemur fólki oft á óvart þegar það fer að athuga hvað er í fæðunni, hversu hátt fituhlutfallið er í því fæði sem það borðar. Þá er ekki verið að tala um fólk sem lifir að stórum hluta á svokölluðu ruslfæði. Nei, þá er átt við fólk sem hefur alist upp við þá fullyrðingu að mjólk, ostar, kjöt og ýmislegt þess háttar svo eitthvað sé nefnt, sé hollt og gott. Þetta sama fólk rekur sig síðan kannski á að fituhlutfallið í því sem það er að borða er um 50%! Þess vegna er best að byrja á að minnka hlutfall fitu í fæðunni. Fitan er orkumikil. Auk þess hefur hún í för með sér alls kyns heilsufarsleg vandamál þó að við séum ekkert að fjölyrða um þau hér núna. Þess vegna er ekki nóg með að þú lítir betur út þegar aukakílóin eru farin, heldur stendur heilsan traustari fótum. Fitan ætti að vera minna en 30% af daglegri neyslu. Ef þú lítur nánar á málið þá er ekki svo erfitt að minnka fituna í fæðunni. Mjólk, smjör, ostar, majones, sósur, djúpsteiktur matur og kjöt eru allt dæmi um afurðir sem vel mætti skera niður. En fita er ekki alltaf sýnileg og það er hún sem erfiðast er að leita uppi.
En hvað á að borða í stað fitunnar? Þá er einungis um prótín eða kolvetni að ræða og þá ber fyrst að nefna flókin kolvetni svo sem korn, grænmeti og ávexti, sérstaklega fyrir fólk sem er mikið á hreyfingu og stundar íþróttir. Kolvetni ættu helst að vera 50 - 55% af orku fæðunnar.
Fólk á orkulitlu mataræði gæti haft gott af að taka vítamín. Yfirleitt er best að fá sem mest af næringarefnunum úr mataræðinu en þegar verið er á orkulitlu mataræði borgar sig að tryggja sig fyrir vítamínskorti með því að taka einhver fjölvítamín.