Tekið af <a href="http://www.gedhjalp.is“>www.gedhjalp.is</a>
Landssöfnun Geðhjálpar
Ný meðferð - Ný störf
fyrir geðsjúka
Í lok febrúar n.k. mun Geðhjálp fara af stað með landssöfnun þar sem söfnunarfénu verður varið til nýrra meðferðarúrræða og uppbyggingu starfa fyrir fólk með geðraskanir.
Þú getur styrkt Geðhjálp
Söfnunarnúmer Geðhjálpar
Söfnunarsími: 907-2070 og fast framlag kr. 1000.- er skuldfært af símreikningi.
Frjáls framlög í síma: 590-7070
Reikningur Geðhjálpar hjá SPRON: 1158-26-65000
Síðan minnum við á sjónvarpssöfnunina í þættinum Milli himins og jarðar á RÚV laugardaginn 2.mars, kl. 20:00.
Landssöfnun Geðhjálpar
Í samstarfi við þá aðila sem nú þegar sinna málefnum fólks með geðraskanir ætlar Geðhjálp að taka þátt í að efla og móta ný og breytt meðferðarúrræði. Með aðkomu fagfólks og fólks með persónulega reynslu af geðröskunum, sem náð hefur bata, verður horft til möguleikans á vali fólks á breyttum úrræðum frá ríkjandi þáttum sem viðhafðir eru í samfélaginu í dag. Í þessu sambandi má m.a. nefna endurhæfingu, stuðning, forvarnir, fjölskyldumeðferð og sjálfshjálp. Samhliða þessu er horft til þeirrar brýnu þarfar að skapa arðbær störf sem með góðu móti er hægt að laga að þörfum og getu fólks með geðraskanir þar sem samfélagsleg nauðsyn á virkni og hlutverki einstaklingsins er jafnframt höfð að leiðarljósi. Markmið er að koma á fót innlendri framleiðslu eldiviðarkubba, unnum úr sagi og vaxi, sem fellur til sem hliðarafurð úr timbur- og olíuiðnaði.
Laugardaginn 2. mars n.k. mun verða gengið í hús um land allt með söfnunarbauka og leitað eftir fjárframlögum landsmanna. Jafnframt verður dreift upplýsingum um tilgang söfnunarinnar og haldgóðar upplýsingar um aðrar leiðir til að inna af hendi framlög, s.s. reikningsnúmer, símanúmer og minnt á hápunkt söfnunarinnar sem verður um kvöldið kl. 20:00 í þættinum ”Milli himins og jarðar" á RÚV, sem tileinkaður verður landssöfnun Geðhjálpar. Reynslusögur, afþreyingarefni ásamt viðtölum verður megin uppistaða viðkomandi þáttar.
Lögð verður áhersla á almenna umfjöllun hjá fjölmiðlunum um hin víðfemnu geðmálefni og þegar nær dregur 2. mars 2002 fara af stað, kynningar á landssöfnunni, markmiðum okkar og tilgangi.
Þegar litið er yfir eftirfarandi samantekt staðreynda mætti ætla að flestir geri sér grein fyrir því gríðalega uppbyggingarstarfi sem samfélag okkar stendur frammi fyrir svo flestir megi njóta geðheilbrigðis og þeirra mannréttinda sem lögbundin eru og krafist er í samfélögum siðaðra. Hvetjum við því alla sem tök hafa á að leggja málefni þessu lið og snúa vörn í stórsókn.
Einn af hverjum fjórum greinist með geðraskanir einhverntímann á lífsleiðinni.
Geðsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma á Íslandi og valda meira vinnutapi og kostnaði en flestir aðrir sjúkdómar. Áætlað er að þetta kosti samfélagið í heild á þriðja tug milljarða á ári eða sem samsvarar 3 - 4% af vergri þjóðarframleiðslu.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO spáir því að geðraskanir verði algengasti sjúkdómurinn sem samfélag þjóðanna standa frammi fyrir á nýrri öld.
Á undanförnum árum hefur flatur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu verið um 4% á ári, en á sama tíma hefur verið skorið niður um 6% til geðheilbrigðismála.
Frá árinu 1996 hefur hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði hér á landi vaxið úr því að vera um 30% upp í 55% - 60% af lyfjaverði í dag. Þetta ásamt hækkun komugjalda í heilbrigðisþjónustunni sem margfaldast hefur undanfarin ár leiðir óhjákvæmilega af sér frekari skerðingu hjá þeim tekjulægstu í samfélaginu, öryrkjum sem enn frekar rýrir lögbundinn rétt þeirra til mannsæmandi lífs.
Skráðir eru 50 heimilislausir einstaklingar sem haldnir eru alvarlegum geðsjúkdómum.
Á árinu 2000, skv. opinberum gögnum voru framin 50 sjálfsvíg. Mörg undangengin ár hafa sjálfsvíg verið á bilinu 25 - 30.
Skv. heilbrigðisáætlun til ársins 2010, gefin út af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er makmiðið að draga úr sjálfsvígum um 25% og geðröskunum um 10%
Biðlistar eru í landinu þar sem hundruðir einstaklinga með geðraskanir bíða meðferðar og endurhæfingar.
Kv. catgirl