Endurhæfingin mín .....
Ég lenti í slæmum veikindum seinastliðið vor og var á spítala í sumar. Fyrst var með haldið sofandi í 40 daga og svo var ég á gjörgæslu og margt fleira. En það var ekki það sem ég vildi ræða hér. Breytingin sem varð á mér við þetta áfall var gífurleg. Í sumar var ég í þeirri stöðu að ég var á Landsspítalnum á Hringbraut og var fastur við hjólastól sem var gríðarleg framför frá því hvað veikindin höfðu verið slæm. En ég ætlaði upp úr stólnum og það tókst með þrotlausum æfingu. Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef tekist á við, það var að fyrst geta sest á rúmstokkinn sem var rosalega erfitt eftir svona tíma ( þurfti fjórar fullorðnar manneskjur til að hjálpa mér) og ég fékk þvílíkan svima og var rosalega slæmur í bakinu, gat ekki setið uppréttur. En með hjálp góðs starfsfólks og sjúkraþjálfara komst ég loks í hjólastólinn, en það var erfitt að sitja í honum. Ég var ákveðinn í því að komast upp úr stólnum og ég var látinn labba 2-3 á dag með göngugrind og það var þvílíkt erfitt að ég hef aldrei vitað annað eins en ég lét mig hafa það og á öðrum degi á Reykjalundi 24 Júlí þá var ég farinn að nota eingöngu göngugrindina og búinn að losa mig við stólinn, sem var rosalega stórt skref. Ég var síðan á Reykjalundi í 3 og hálfan mánuð rúmlega og fór þaðan endanlega í byrjun nóvember. Núna er ég í þjálfun í World Class með einkaþjálfara og ég finn mun á mér á hverjum degi. Bæði hvað varðar vöðvauppbyggingu og þyngdina. Ég er búinn að missa þrjú og hálft kíló frá áramótum og stend í ströngu við þetta. Maður lítur allt öðruvísi á lífið eftir svona hremmingar. Svo er ég líka að æfa borðtennis og keilu núna og náði einmitt um jólin tveimur verðlaunapeningum fyrir borðtennis sem ég var rosalega stoltur af. Svona er þetta hjá mér og ég reyni bara á hverjum degi að bæta mig eins og ég get því að ég er staðráðinn í að ná sem mestu út úr þjálfuninni svo að þessi saga geti endað vel.