Þema á tannverndardeginum í ár er: Sykurneysla
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er ársneysla af sykri á hvert mannsbarn í landinu að meðaltali 53,1 kg. Þrátt fyrir þessa miklu sykurneyslu höfum við náð verulegum árangri í baráttunni gegn tannskemmdum á síðustu árum og má meðal annars rekja það til bættrar tannhirðu almennings.
Frá árinu 1983 hefur tannheilsudeild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins skipulagt árlegan tannverndardag sem ávallt er fyrsta föstudag í febrúarmánuði.
Markmið tannverndardags er fyrst og fremst að vekja athygli almennings á mikilvægi góðrar tannheilsu og vörnum gegn tannskemmdum.
Þessi árlegi viðburður hefur verið skipulagður með ýmsum hætti, meðal annars með því að hvetja alla fjölmiðla til þess að fjalla um tennur og tannvernd með einhverjum hætti, fá fagaðila til þess að rita greinar í dagblöð, flytja erindi um tannvernd í útvarpi og gefa út sjónvarpsefni fyrir börn.
Á undanförnum vikum hefur mikið verið rætt um sykur í fæðu. Ekki er vanþörf á umræðu um sykur þar sem Íslendingar neyta meira af honum en flestar aðrar þjóðir. Í manneldismarkmiðum frá Manneldisráði Íslands er hvatt til þess að sykurneyslu sé stillt í hóf og ekki komi meira en 10% orkunnar úr fínunnum sykri. Öllum er ljóst að sykurneysla ýtir undir tannskemmdir. Tennur skemmast við það að bakteríur í munni brjóta niður sykur í fæðunni og mynda sýru sem vinnur á tönnunum.
Gosdrykkir innihalda flestir u.þb 10%sykur,þar er auðvitað ekki átt við sykurlausa drykki því að þeir innihalda engann sykur(eins og nafnið gefur til kynna)
Einnig er að finna mikið úrval af alls kyns hreinum ávaxtasöfum og drykkjum sem eru blöndur úr ávaxtasöfum og sykurvatni. Flestir þessir drykkir innihalda um 10% sykur. Sykurinn í hreinum ávaxtasöfum er að sjálfsögðu kominn beint úr ávöxtunum og telst því ekki viðbættur sykur. Vert er að vekja athygli á kolsýrðu vatni án sykurs en það hefur náð auknum vinsældum á síðustu árum. Þess ber að geta að gosdrykkir og ávaxtasafar eru súrir en sýran hefur eyðandi áhrif á tannglerunginn. Sykurlausir gosdrykkir eru einnig súrir en magn sýrunnar er þó mismunandi eftir tegundum. Að öllu þessu sögðu er óhætt
að fullyrða að vatn sé besti svaladrykkurinn.
Svo hugsum um tannheilsuna,munum eftir tannverndardeginum sem er á morgun 1.febrúar……og munum að drekka vatn!!
Kveðja