Félagsfælni
Félagsfælni er eins og nafnið gefur til kynna ein tegund fælni. Fælni er flokkuð sem kvíðaröskun ásamt áráttu-þráhyggju, almennum kvíða, felmtursröskun með eða án víðáttufælni og áfallaröskun.
Almennt um fælni
Fælni hefur svo verið flokkuð í félagsfælni, víðáttufælni og afmarkaða fælni, sem beinist að einu áreiti eða aðstæðum. Þekkt dæmi um síðastnefndu fælnina eru flugfælni, lyftufælni, skordýrafælni, sprautufælni og snákafælni. Talsvert hefur verið fjallað um slíka afmarkaða fælni en mun minna um félags- eða víðáttufælni sem þó eru almennt meira hamlandi.
Fælni einkennist af ýktum ótta eða kvíða við það sem fælst er. Sá sem slíkt upplifir er líklegur til að forðast eða hliðra sér við slíkum kvíðavaldandi aðstæðum til að forðast að upplifa kvíða sem getur nálgast mörk kvíðakasts. Þá er kvíðinn kominn úr öllu valdi og einstaklingurinn lamaður af hræðslu. Fælni er algengari meðal kvenna en karla. Þannig er hún algengasta geðröskunin meðal kvenna og næstalgengust meðal karla á eftir misnotkun áfengis. Þannig er um gríðarlega útbreidda, falda og hamlandi röskun að ræða.
Hvað er félagsfælni?
Félagsfælni er ýktur kvíði og óraunhæfur í félagslegum aðstæðum. Þá er átt við hverjar þær aðstæður þar sem fólk er komið saman t.d veislur, fundir, bíóhús, verslanir og veitingahús. Nóg getur verið fyrir hinn félagsfælna að hugsa um slíkar aðstæður eins og komandi fund til að upplifa kvíða og ónotakennd. Hann veit hins vegar að um óraunhæfan ótta er að ræða. Sú grunnvitneskja hjálpar þó ekki. Sá sem er mjög fælinn er líklegur til að finna sér upp ástæður til að koma sér undan að sækja væntanlegan fund. Ef hann kemst ekki undan að mæta er líklegt að kvíðinn magnist upp fram að aðstæðunum og verði mjög óþægilegur þegar þangað er komið. Þetta getur jafnvel gerst þótt engar kröfur verði gerðar til einstaklingsins að tjá sig. Almennt langar einstaklinginn þó að sækja mannamót.
Tvennt er það sem einkennir hugsun hins félagsfælna og verður að vera til staðar til að greinimörk séu uppfyllt. Annars vegar sú óttatilfinning að verða sér einhvern veginn til skammar eða minnkunar. Óttast hann að hin líkamlegu kvíðaeinkenni eins og skjálfti, andlitsroði, andþrengsli og sviti komi upp um óöryggi hans. Hins vegar sú hugsun að sífellt sé verið að fylgjast með honum og taka hann út. Þannig upplifir mjög félagsfælið fólk sig sífellt í sviðsljósinu þó svo í raun sé enginn að fylgjast með því sérstaklega Þeir sem upplifa fælnina finna flestir fyrst fyrir henni fyrir tvítugsaldur.
Félagfælni getur náð ýmist til fjölbreyttra félagslegra aðstæðna og verið þannig mjög hamlandi til að afmarkast við t.d. að tala í síma fyrir framan aðra. Munurinn á mikilli feimni og félagsfælni er helst sá að hinn félagsfælni forðast félagslegar aðstæður. Félagsfælnir ganga meðfram veggjum eða láta alls ekki sjá sig í félagsskap. Þeir passa sig á að velja sér störf og tómstundir sem reyna lítið eða ekkert á félagslega færni eins og tölvuvinnu eða hreingerningarstörf. Samt þarf félagslega færni alls ekki að skorta heldur miklu frekar trúin á eigin færni.
Tíðni félagfælni
Tiltölulega stutt er síðan að byrjað var að tala um félagsfælni sem afmarkaða röskun. Ljóst er að áður fyrr var fólk talið til baka eða feimið þó svo að það hafi verið illa haldið af félagfælni sem talað er um í dag. Miklar rannsóknir hafa farið fram á síðustu árum á félagskvíða og félagsfælni og töluvert er vitað um fyrirbærið. Tíðnitölur hafa verið nokkuð misvísandi en nú bendir allt til að fyrirbærið sé mjög útbreitt.
Könnun sálfræðinganna Eiríks Arnar Arnarsonar og Ásu Guðmundsdóttur frá 1988 sýndi að 4% landsmanna uppfylltu greinimörk fyrir félagsfælni á sex mánaða tímabili. 2,5% manna og 5% kvenna. Mest var fælnin meðal ungs fólks á aldrinum 25-44 ára. Margt bendir til að þessar tölur séu lágmarkstölur. Samkvæmt ofangreindri rannsókn fældust 31% að tala opinberlega og 24% að tala við ókunnuga. Í þessari rannsókn sögðust 36,7% félagsfælinna geta rakið upphafið til ákveðins atburðar. Orsök félagsfælni er því í flestum tilvikum óþekkt. Þó t.d. einelti í æsku geti verið orsök.
Í Bandaríkjunum sýndi rannsókn frá 1994 að 7,9% þjáðust af fælninni á ársgrundvelli og allt að 13% fái félagsfælni einhverntíma á ævinni og er ástæða til að ætla að sú tala sé svipuð hérna.
Eigin reynsla
Sjálfur hef ég tekist á við umrædda fælni. Ég get vitnað um að hún er algjört helvíti að eiga við en einnig að hægt er að minnka hana mikið. Ég var eins og flestir félagsfælnir feimið barn og ekki er mér ljóst hvenær feimnin færist yfir í fælni. Það er líklega á unglingsárum. Ég hef forðast mannfögnuði eins og heitan eldinn oft á tíðum og passað mig á að láta jafnan lítið á mér bera. Þetta varð til þess að maður gerði ekki það sem mann langaði til og sat heima með sárt ennið eða tjáði ekki hug sinn. Fyrir um tveimur árum leitaði ég svo hjálpar við þessu þegar kvíðinn var orðinn þannig að lá við kvíðakasti og vanlíðanin orðin ferleg þegar ég sótti kennlustundir í skólanum. Það getur ekki farið fram hjá neinum hversu kvíðinn ég er, hugsaði ég. Þegar ástandið var svona var þunglyndið skammt undan. Ég komst ekki hjá því að sjá hvað var í gangi. Ég hræddist fólk.
Sálfræðimeðferð hjálpaði mér mikið að vinna á verstu einkennunum með því að útsetja mig kerfisbundið í aðstæðurnar, læra slökun og leiðrétta órökrænar hugsanir. Sálfræðimeðferðin kostaði nokkurn sársauka þar sem maður þarf að horfast í augu við sína geðröskun; sínar tilfinningar, hugsanir og hegðun. Mér fannst alltaf eins og sífellt væri verið að fylgjast með mér meðal fólks. Þetta er ranghugmynd sem ég lærði að takast á við. Það er óskemmtilegt að upplifa sig eins og í sviðsljósinu þegar maður þolir ekki athygli. Mín reynsla er að ég er kvíðnastur fyrst í félagslegum aðstæðum en svo dvínar kvíðinn þegar ég aðlagast aðstæðunum.
Þarna kemur svo inn í fullkomnunarárátta en hún getur komið í veg fyrir að maður geri nokkurn skapaðan hlut af ótta við að mistakast. Mikilvægt er að sætta sig við það að vera með einhverja galla en akkúrat enginn er gallalaus! Sjálfsstyrking er verðmæt í þessu sambandi en allt sem er til þess fallið að auka sjálfsmatið fyrir hinn félagsfælna er dýrmætt.
Fælnieinkennin eru þrautseig og mín reynsla er sú að þau komi upp aftur þó að góður árangur hafi náðst á tímabili. Sálfræðivinnan er þó ekki fyrir bí því ef maður hefur einu sinni ögrað niðurbrjótandi hugsunum og hegðun er það líklegara til að vera auðveldara seinna. Sú vinna er ómetanleg.
Horfur
Ef ekkert er að gert er líklegt að fælnin færist yfir á fleiri aðstæður og á endanum getur fólk orðið fangar á eigin heimili . Eitt er víst að það sigrast enginn á fælni nema að horfust í augu við það sem veldur ótta. Þetta þarf að gera hægt og kerfisbundið og ekki má gleyma að hrósa sér þegar árangur næst. Sálfræðimeðferð sem kallast hugræn- atferlismeðferð skilar mjög góðum árangri við t.d. kvíðarsökunum eins og rannsóknir sýna. Maður þarf að spyrja sig af hverju óttavaldurinn veldur ótta og hvort ekki sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. Maður ofmetur það hversu mikið verið er að fylgjast með manni og hversu vel aðrir sjá kvíða manns. Þessar ranghugmyndir þarf að leysa upp og koma inn nýjum uppbyggilegum hugsunum í staðinn. Þannig geta uppbyggilegar hugsanir komið ósjálfrátt með æfingu í stað niðurbrjótandi hugsana. Maður þarf að leitast við að hrekja óttann með öllum mögulegum ráðum en ætla sér þó ekki of mikið í einu.
Þetta krefst mikillar sálfræðivinnu og er hún jafnan nauðsynleg við mikilli fælni eigi árangur að nást. Þunglyndislyf hafa verið notuð en engin lyf eru til sérstaklega ætluð fælni. Þá getur verið nauðsynlegt að taka róandi lyf í upphafi til að auðvelda við að halda kvíðanum niðri og fara út í kvíðavaldandi aðstæðurnar. Mikilvægt er að forðast að misnota róandi lyf hvers konar og áfengi ber að varast þar sem misnotkun áfengis er þekktur fylgikvilli. Með kerfisbundinni vinnu er hægt að minnka fælnieinkennin mjög eða að útrýma þeim allveg. Samkvæmt Eiríki Erni sálfræðingi er hægt að meðhöndla fælni í langflestum tilvikum þó hún hafi staðið lengi. Þarf stundum ekki nema 10 tíma sálfræðimeðferð til að ná verulegum árangri.
Geðheilsan
Mín ósk er að geðheilbrigði og geðraskanir verði ekki aðeins til umfjöllunar á tyllidögum heldur á hverjum einasta degi. Heilsa okkar er það mikilvægasta sem við eigum og er ekki hægt að fjalla heildrænt um hana nema að tala líka um geðheilsu. Hana þarf að rækta og hlúa að og er það ekki gert í áhlaupi heldur ævina í gegn eigi vel að takast til. Mikilvægt er að hefja upplýsta umræðu um félagsfælni svo að þeir sem þjást geti borðið kennsl á vandann, hlotið skilning á honum, rætt um hann, tekist á við hann og leitað sér hjálpar. Þetta er nauðsynlegt svo lífsgæði félagsfælinna geti aukist.
Með umræðu og skilningi er hægt að fyrirbyggja hugsanlegan vanda og grípa fyrr inn í þegar geðheilsan byrjar að láta undan. Vonandi skilar þetta því að sálfræðimeðferð verði viðurkennd af stjórnvöldum og einstaklingum sem árangursrík meðferð sem beri að nýta sér. Ég vil að lokum minna á sjálfshjálparhóp fyrir fælna sem starfræktur verður hjá Geðhjálp á miðvikudagskvöldum í vetur
(Útdráttur úr þessari grein birtist í Mbl. mið. 10. okt. 2001)
Elís V. Árnason
Höfundur er nemi.
elli@isl.is