Þannig standa málin að ég er alltaf veik, í bókstaflegri merkingu… Eftir að ég varð eldri þá hafa veikindin verið að aukast og ætla ég að taka saman veikindin mín síðan í nóvember 2007…
4. nóvember fór ég á Læknavaktina vegna þess að ég var viss um að ég væri komin með lungnabólgu. Kærastinn minn og kærasti systur minnar höfðu báðir fengið lungnabólgu í október og ég vildi fara strax upp á læknavakt til að koma í veg fyrir að ég fengi e-ð svipað. Læknirinn þar hlustaði mig og greindi mig með bronkítis og væga lungnabólgu, ekkert sem ég ætti að hafa áhyggjur af. Ég fékk sýklalyf sem ég átti að taka inn í einhverja daga en ég átti samt að verða orðin “góð” eftir 2-3 sólarhringa.
Ég fór heim ánægð með sjálfa mig að hafa farið strax í stað þess að hafa beðið og fengið e-ð verra. En þetta lagaðist ekki heldur fóru andþyngslin að aukast, ég svaf ekkert á næturnar og hóstinn var að drepa mig. Ég var komin með hátt upp í 40 stiga hita á miðvikudeginum þegar ég ákvað að fara upp á Slysó í frekara mat. Kærastinn minn hafði farið þangað útaf sinni lungnabólgu og þar fékk hann einn poka af sýklalyfjum í æð og svo heim þar sem hann var fljótur að jafna sig. Ég hélt ég þyrfti bara e-ð svipað….
Læknirinn sem tók á móti mér leist nú ekkert á mig og sendi mig í lungnamyndatöku og í kjölfarið af henni lagði hann mig inn. Ég var komin með mjög slæma lungabólgu og tegund af lungnabólgu sem er mjög sjaldgæf. Ég lá á spítalanum í 1 viku með sýklalyf í æð 2-4 sinnum á dag og fyrstu dagana var ég lítið að svara meðferðinni þannig að skipt var um lyf oftar en einu sinni. Ég fékk allavega þrennskonar sýklalyf á spítalanum og það seinasta “læknaði” lungnabólguna þannig að ég gat farið heim. Læknarnir sögðu að ég hafi verið heppin að hafa verið “ung og hraust” því ekki allir hefðu þolað þessa lungnabólgu.
Þarna var ég búin að fá 4 tegundir af sýklalyfjum.
Til að gera langa sögu stutta þá þurfti ég annan sýklalyfjaskammt stuttu seinna og enn annan í janúar útaf þessu. Sá var nr 6.
Síðan í lokin var ég greind með langvarandi astma og þarf núna framvegis að pústa 2x á dag svo ég geti stundað daglegt líf. Ég er enn að byggja upp þolið og við minnsta áreiti verð ég móð og andstutt.
Einhverntímann í mars fékk ég svo sýkingu í sár sem ég fékk á tánna og þurfti ég sýklalyf útaf því, skammt nr 7 á 4 mánuðum.
Í lok apríl fór ég í aðgerð (ekkert alvarlegt) og til að fyrirbyggja sýkingu í kjölfar hennar þá fékk ég sýklalyf. Það var skammtur nr 8.
Í byrjun maí fékk ég síðan blöðrubólgu en ég fæ hana alltaf reglulega. Hef fengið hana síðan ég var lítil og þetta er oft þannig með blöðrubólgu, ef þú færð hana einu sinni þá færðu hana mjög líklega aftur. Ég fæ hana ca 1-2 á ári, tengt við veðurfarsbreytingar og systir mín er nákvæmlega eins, ef ekki verri. Ég þurfti sýklalyf til að losna við blöðrubólguna, skammt númer 9.
Síðan á sunnudag (11. maí) hef ég fundið fyrir slappleika, týpísk flensueinkenni en með stingandi verk í hálsinum. Á mánudaginn vaknaði ég með kýli í hálsinum sem ég hélt fyrst að væri hettusótt, en svo reyndist ekki. Ég fór til læknis á þriðjudeginum sem greindi mig bara með flensu. Heim fór ég en leist nú ekkert á blikuna þar sem kýlið fór stækkandi og verkirnir jukust með því.. Verkirnir leiddu alveg upp í eyra og þaðan upp í haus sem orsakar mikinn höfuðverk. Með þessu fylgir svo mikill hiti og hef ég mest verið með 39,5 stiga hita.
Á miðvikudeginum var ég orðin frekar hrædd, tungan mín var orðin náhvít svo ég dreif mig upp á læknavakt og þar var ég greind með mjög slæma hálsbólgu og streptakokka. Læknirinn sagði að hálsbólga sæist sjaldan utan á fólki en það er þetta kýli, hálsbólgan var orðin það mikil.
Nú enn einu sinni fékk ég sýklalyf og það er skammtur númer 10 ….
Á þessu tímabili hef ég svo 2x fengið flensu þar sem ég hef þurft að liggja heima og borða vítamín. Engin sýklalyf þar, sem betur fer.
Mín spurning er þessi, er eðlilegt að vera svona oft veikur? Getur þetta tengst lungnabólgunni sem ég fékk í nóvember eða er ég almennt bara með svona slæmt ónæmiskerfi?
Og í sambandi við sýklalyfin! 10 mismunandi sýklalyfjakúrar á hálfu ári! Það getur varla verið hollt fyrir mann???
Ég er orðin langþreytt á þessu og nú vonast ég til að sjá fyrir endinn á þessu. Einhver ráð sem þið getið gefið mér? E-ð sem ég get gert daglega til að koma í veg fyrir þessi veikindi mín?