Mín reynsla af reykingum Þetta átti í raun bara að vera svar við grein hér fyrir neðan, en þetta varð á endanum svo langt, að ég ákvað bara að senda þetta inn sem grein.

Þetta byrjaði allt á fikti hjá mér í 9. bekk. Ég var í einhverju bekkjarpartýi, þar sem maður var ekki inni í hópnum nema að vera með sígarettu í hönd. Ég var nú ekki vinsælasti strákurinn í grunnskóla, þannig ég ákvað að reyna að falla inn í hópinn, og tók mér þ.a.l. sígarettu í hönd. Ég þráði ekkert meira en að falla inn í hópinn, þannig ég reyndi allt til þess. Ég drakk mest af öllum, reykti sígarettur, var mesti reglubrjóturinn, o.s.frv.

Í fyrstu púaði ég bara. Krökkunum virtist standa á sama, þar sem það eina sem skipti máli var það að ég væri “að reykja”. Vel lengi eftir þetta púaði ég bara. Ég var farinn að kaupa mér sígarettupakka daglega og púaði hann alltaf, bara til þess að falla inn. Svölu krakkarnir áttu það til að hringja í mig og bjóða mér út í sígó. Í fyrsta skipti á ævinni, fannst mér ég vera inni í hópnum.

Eitt skiptið þegar vinur minn var einn heima, bauð hann mér heim til sín. Við fengum okkur bjór og sígó. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég tók ofan í mig reykinn af sígarettu. Við vorum að horfa á eitthvað fyndið á netinu og ég tók smók og byrjaði svo að hlæja, þannig allur reykurinn fór ofan í lungun mín. Síðan þá byrjaði ég að taka ofan í mig.

Seinna byrjaði ég í verkamannavinnu, þar sem allir reyktu. Ég gat auðvitað ekki verið sá eini sem reykti ekki, þannig ég reykti alltaf þarna með körlunum.

Þetta hófst að verða mesti ávani og fíkn sem ég hef upplifað á ævi minni, en í leiðinni var þetta bara svo gott. Bara það að setjast niður og fá sér sígarettu, var svo afslappandi og fannst manni maður bara fá pásu frá heiminum á meðan. Þetta varð einhvernveginn góð fíkn, og ávaninn vandist ekkert af manni.

Með árunum sem liðu, fannst mér bara gott að reykja, og gerði ég það óspart. Á milli hverrar kennslustundar í skólanum fór ég niður með félögum mínum í sígópásur. Alltaf var svo gott að fá sér sígó.

Nú í 5-6 ár er ég búinn að reykja sirka pakka á dag og sé ekkert eftir því. Vissulega væri maður til í að vera með betra þol og svona, en mig langar bara ekkert að hætta.

Mér finnst ekkert betra en að fá mér bjór og sígó. Það er einhvernveginn orðinn svona fastur liður á djamminu, þ.e. að sígarettan fylgi bjórnum, og í þokkabót er það bara svo gott! Það er örugglega ástæðan fyrir því af hverju margir Íslendingar reykja bara á djamminu, en ekki að staðaldri.

Ég viðurkenni að þetta hafi bara byrjað út af hópþrýstingi og við það að reyna að falla inn í hópinn, en það skiptir mig nánast engu máli í dag. Ég gæti hætt, ef ég virkilega vildi, en ég bara vil það ekki.

Ég á vin, sem hafði aldrei drukkið né reykt á ævi sinni. Um daginn byrjaði hann bæði að drekka og reykja. Hann reykir reyndar ekki að staðaldri, en hann reykir á djamminu. Það fyndna við það, er það að hann púar alltaf, þó hann geti tekið reykinn ofan í sig án erfiðleika. Hann byrjaði bara að reykja vindla, og púaði þá alltaf, og hóf eftir það að púa sígarettur.

Ég á annan vin, sem byrjaði að reykja þegar við vorum saman á fyrsta ári í menntó. Hann reykti mjög mikið, en hætti því svo. Hann hætti að reykja í mörg ár, en byrjaði aftur á því um daginn, og reykir núna að staðaldri. Hann fékk sér oft eina og eina á fylleríum, en eftir að hann byrjaði í sambandi, mátti hann það ekki lengur. Núna er hann hættur í þessu sambandi og byrjaði aftur að reykja.

Ég veit ekki alveg hvort þetta sé gáfulegt hjá þeim, en þeir ráða sér sjálfir, ekki satt? Það sem fer mest í taugarnar á mér, er þegar fólk er að skipta sér af reykingum mínum. Ég reyki, út af því að ég kýs að reykja og hvort sem einhverjum öðrum sé illa við það eða ekki.

Nú spyr eflaust einhver sjálfan sig, “hefur hann aldrei reynt að hætta?”. Jú jú, vissulega hef ég reynt nokkrum sinnum að hætta, en það varð ekkert úr því. Ég hætti einu sinni í tvær vikur, en byrjaði aftur á djamminu og þ.a.l. að staðaldri. Ég man ekki alveg af hverju ég hætti að reykja, en það var ábyggilega út af einhverjum áhrifavaldi. En ég hætti oftast að reykja í nokkra daga, þegar ég er veikur, þar sem reykurinn fer voðalega illa í hálsbólgu og víman hefur bara neikvæð áhrif á hausinn. Einnig finnur maður ekki eins mikið fyrir nikotín-þörfinni.
Gaui