Undanfarið hefur svifryk verið mikið í fréttum. Ekki kemur þetta til vegna óbilandi áhuga Íslendinga á mengunarvörnum heldur út af því að svifryk mældist 30 sinnum yfir heilsuverndarmörkum árið 2005.

En hvað er svifryk?


Svifryk af mannavöldum kemur frá svo að segja allri starfsemi, en mest frá eldsneytisbruna, umferð og iðnaði. Náttúrulegar uppsprettur ryks í andrúmsloftinu eru t.d. uppblástur, eldgos og sjávarúði. Talið er að almennt sé 80-90% af ryki í andrúmsloftinu í dreifbýli sé frá þessum náttúrulegu uppsprettum. Hinsvegar hafa kannanir í Reykjavík sýnt að 65-70% svifryks í Reykjavík sé vegna bifreiðaumferðar

Svifryki er skipt í gróft og fínt svifryk, gróft er þá frá 2,5 – 10 míkrómetrum (1 míkrómeter = 0,001 millimeter) en fínt undir 2,5 míkrómetrum. Fínna svifrykið kemur til af mannavöldum, t.d. bruna eldsneytis en það grófara oftast frá fyrrnefndum náttúrulegum uppsprettum. Fína svifrykið er mun hættulegra en það grófa, agnir minni en sirka 10 míkrómetrar, eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta safnast þar fyrir. Þegar svo langt er komið, fara áhrifin alfarið eftir því, hversu lengi og hversu oft persónan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, t.d. þungmálmar.

Algengustu áhrif svifryks er á fólk sem nú þegar þjáist af öndunarfærasjúkdómum, svo sem asma. Þessar litlu agnir geta haft svo slæm áhrif á fólk að það neyðist til að halda sig innandyra meðan svifryk mælist sem mest. Sjaldgæfari áhrif en þeim mun hættulegri er t.d. lungnakrabbamein og langvarandi lungnateppa.

En hvað getum við gert?


Besta væri ef hægt væri að minnka umferð bíla í borginni, ef fólk myndi minna nota einkabílinn, nota frekar almenningssamgöngur, fara fótgangandi eða á hjóli. Hinsvegar veit ég af eigin reynslu að það er hægara sagt en gert að leggja bílnum og fara allt í einu að nota strætó.
Ein leið til að minnka mengunina er einnig að fólk nýti ferðar bíla, t.d. vinir fari saman í vinnuna eða skólann. Ég hef heyrt því fleygt að vilji maður vernda umhverfið sé það algjört no no að nota einkabílinn ef færri en 4 eru í honum.
Það vekur athygli að flestir þeir dagar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk eru á veturnar í snjólausum froststillum. Ástæðan er sú að nagladekkin okkar spæna upp malbikinu og stillurnar koma í veg fyrir að mengunin dreifist. Mætti kannski auka notkun heilsársdekkja og sleppa alveg nagladekkjunum? Ég tel allavegna að fólk sem aldrei fer út fyrir bæinn hafi minnst með nagladekk að gera og geti sparað sér tíma á dekkjaverkstæðum tvisvar á ári. Reyndar kosta heilsársdekk eitthvað meira, en á móti kemur peningur sem sparast í dekkjaskipti.
Skógræktarfélag Íslands hefur bent á að tré í þéttbýli geti dregið úr svifmengun, um leið og þau skapa skjól og draga út hávaðamengun. Er barrið stórtækast í þeim tilgangi, enda stærsta yfirborðið fyrir rykið að setjast á. Mætti því ekki planta trjám meðfram helstu umferðaræðum borgarinnar?

Ég vona að þú hafir haft gagn og gaman af því að lesa þessa grein og að hún hafi vakið þig til umhugsunar.
Just ask yourself: WWCD!