Ég vildi rifja upp þessa svakalegu lífsreynslu mína sem ég upplifði í gær þegar ég fékk bráðaofnæmi…


Ég kláraði skóladaginn um hálfþrjú og tók Vatnsendarútuna að Skyggni, þaðan gekk ég í gegnum Víðidalinn og heim til mín í Selásinn í alveg grenjandi rigningu, hef ekki lent í svona mikilli rigningu leengi!
Ég var bara með anorakk utan yfir mig og var að drepast úr kulda, blaut í gegn.
Ég dreif mig heim og skipti strax í þurr föt, svo tók ég eftir því að ég fékk alltíeinu alveg svakalega hálsbólgu, gat ekki hætt að hósta og kvef. Ég hélt að ég væri bara að fá einhverja flensu eftir rigninguna, hringdi í pabba og sagði honum að ég væri slöpp, hann sagði mér bara að leggja mig. Ég gerði það en þá fór mig að klæja nánast allstaðar, ég réð ekkert við mig, svo fann ég að ég fór öll að bólgna og tungan mín varð fjórföld. Þá sá ég að þetta var ekki bara flensa, ég gat varla talað útaf tungunni og það var farið að verða mjög erfitt að anda.
Þá hringdi ég aftur í pabba og sagði honum að ég væri skíthrædd, vissi ekkert hvað var á seyði og sagði honum að ég væri hætt að geta andað og þá sagðist hann ætla að koma.
Eftir það lagðist ég uppí rúm og ég sver að mér leið svo illa að ég hélt ég myndi deyja þarna ein heima :/

Mjög stuttu seinna (mér fannst það þó vera eilífð) hringdi síminn, ég svaraði og það var kona frá Neyðarlínunni, pabbi hafði sem sagt hringt í 112. Það var erfitt að tala við hana vegna tungunnar og hún skildi mig varla.
Hún sagði mér að það væri sjúkrabíll á leiðinni og ég átti að fara út að gá hvort ég sæi sjúkraliðina, ég sá þá og hleypti þeim inn.
Þeir sögðu mér að setjast niður og vera bara róleg, þeir gáfu mér súrefni og sprautuðu mig með adrenalíni beint í æð og sprautuðu sterum beint í vöðva.
Smám saman fór mér að líða betur. Læknir og annar sjúkraliði komu með sjúkrabílinn.
Mamma og pabbi komu heim um leið og mennirnir fóru með mig í börum inní sjúkrabílinn, mamma fékk að fara með í bílnum en pabbi varð eftir.
Ég skalf óstjórnanlega eftir allt adrenalínið og leið mjög illa í bílnum, ég var orðin rauð og með útbrot um allan líkamann.
Sjúkrabílinn flutti mig til Barnaspítala Hringsins og þar tóku hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir á móti mér og sögðu mér að þetta hafi verið bráðaofnæmi.
Ég lá inná bráðaherberginu í nokkra stund á meðan konurnar töluðu við mig og mömmu (pabbi var ekki enn kominn). Þar var tekin blóðprufa.
Svo var ég færð inní stórt herbergi, það var bara eitt par þar með litla 16 daga stelpu með sér að gefa henni.
Þar inni þurfti ég að taka inn átta steratöflur.
Ég fékk kvöldmat um kl. átta og var bara inní herberginu meö mömmu og pabba, mér tókst að sofna aðeins á meðan mamma og pabbi horfðu á Fylki vs. Hauka spila.
Þegar ég vaknaði var skjálfturinn hættur og ég var öll að koma til.
Um klukkan tíu um kvöldið var ég lögð inn á lítið, flott herbergi með svölum, sjónvarpi og sér klósetti, ég fékk nokkrar Andrés-syrpur þar og horfði á sjónvarpið þartil mamma og pabbi fóru (ég ákvað að vera bara ein) um miðnættið, þá fór ég bara að sofa.
Ég vaknaði klukkan sex um morguninn og dormaði til átta, þá kom mamma. Pabbi kom seinna.
Ég fékk morgunmat og fékk að fara inní svokallað “unglingaherbergi” þarsem hægt var að fara í tölvuna og Play Station 2. Ég var í tölvunni í smá tíma þar til ég var kölluð inní herbergi og Björn Árdal, ofnæmissérfræðingur og fullt af aðstoðarfólki kom til að rannsaka fyrir hverju ég hafði ofnæmi fyrir.
Björn fyllti út lista af þekktum ofnæmisvöldum sem komu til greina og þeir ætluðu að skoða.
Björn sagði okkur að kaupa adrenalínpenna til öryggis ef þetta skildi gerast aftur og kenndi okkur á pennan. Svo fór hann þegar hann var búinn að tala heillengi við okkur.
Kona kom til að taka aðra blóðprufu þar sem þau höfðu ekki nóg blóð fyrir öll ofnæmisprófin.
Nálin í handleggnum var fjarlægð við mikinn létti þar sem það var mjög vont að hafa hana, núna er stærðarinnar marblettur að myndast þar.
Ég fékk loksins að fara um hádegi, reyndar var ég bara í inniskóm því að enginn hafði munað eftir skóm handa mér.

Dagurinn leið og hér er ég, ég er forvitin að vita fyrir hverju ég hef ofnæmi fyrir en er þó áhyggjufull yfir að ég hafi ofnæmi fyrir köttum þar sem ég á sjálf kött. Fólkið sagði mér þó að það væri mjög ólíklegt þarsem ég hafði átt köttinn í heilt ár og ekkert gerst.

Núna lít ég til baka og hugsa hvað hefði gerst ef pabbi hefði ekki hringt í neyðarlínuna… :S

Kv, Desmondia