Að meðaltali deyr einn jarðarbúi á hverjum tíu sekúndum af völdum reykinga. Um sjö Íslendingar deyja á viku af völdum reykinga. Fjórir af hverjum fimm unglingum sem ánetjast tóbaki verða reykingamenn til frambúðar. Stærstur hluti unglinga, sem byrja að fikta við tóbak fer að reykja að staðaldri. Reykingar unglinga eru því alvarlegt heilbrigðisvandamál. Um leið og við fræðum unglinga um skaðsemi tóbaks ber okkur siðferðisleg skylda að rétta þeim sem hafa ánetjast tóbaki hjálparhönd. Meirihluti reykingamanna á öllum aldri vill hætta að reykja.
Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur haldið mörg „hættum að reykja“ námskeið fyrir unglinga í grunnskólum. Reynslan sýnir að það er þörf fyrir námskeið af þessu tagi í elstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Það fer hins vegar betur á því að leiðbeinandinn þekki þátttakendur og að hann sé öllum hnútum kunnugur í viðkomandi skóla. Þátttakendur verða einnig að treysta og bera virðingu fyrir leiðbeinandanum. Því réðst Krabbameinsfélagið í, með styrk frá Tóbaksvarnanefnd, að setja saman þessar leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla.
Í starfsliði skólans eru margir sem koma til greina við að hjálpa unglingum að hætta að reykja. Þar má nefna skólahjúkrunarfræðing, eða aðra starfsmenn skólaheilsugæslunnar, náms-ráðgjafa, kennara s.s. íþróttakennara, líffræðikennara, umsjónarkennara og umsjónarmann félagsstarfs. Starfsmenn félags-miðstöðva geta einnig nýtt sér þessa handbók.
Boðið er upp á margvísleg „hættum að reykja” námskeið fyrir fullorðna reykingamenn hér á landi. Árangur af þeim er misjafn en segja má að um 30% þátttakenda séu reyklausir að ári liðnu þar sem best lætur. Árangur af slíkum námskeiðum með unglingum er mun minni en með fullorðnum þar sem það krefst þroska að glíma við fíkn. Stjórnendur á unglinganámskeiðum verða að gera sér grein fyrir þessu áður en þeir halda námskeið.
Reykingar unglinga eru nátengdar sjálfsímynd þeirra. Þær eru líkar félagslegt atferli. Unglingar sem reykja hópa sig gjarnan saman og nota sígarettuna sem „félagsskírteini“ og samskiptahækju. Sá unglingur sem ætlar að hætta að reykja er því undir margþættu álagi. Hann verður ekki eingöngu að glíma við fíkn heldur einnig við félagahópinn. Þegar einn úr hópnum hættir að reykja getur það haft áhrif á samkenndina með hópnum og félagslega stöðu viðkomandi einstaklings.
Þó svo að fáir unglingar hætti alveg að reykja eftir slík námskeið er mjög margt unnið með þeim. Fyrst ber að nefna að með því að skrá sig á námskeið hefur unglingurinn stigið það mikilvæga skref að viðurkenna að hann óski þess að hætta að reykja og tekið þá ákvörðun að gera eitthvað markvisst til þess að láta þá ósk rætast. Þannig aukast líkur á að jafnvel þó að unglingnum takist ekki að verða reyklaus að loknu námskeiði sé hann meðvitaðri um reykingar sínar, sé ekki „staðfastur” reykingamaður og takist því frekar að hætta síðar þegar hann hefur þroska til.
Í öðru lagi geta námskeiðin gert nemendur jákvæðari í garð skólans. Unglingar sem reykja hafa oft lent upp á kant við skólayfirvöld og hafa jafnvel neikvæð viðhorf gagnvart skólananum. Skólinn umber ekki reykingar nemenda en tekur oftast á þeim eingöngu sem agabrotum. Með því að bjóða námskeið af þessu tagi kemur hann á móts við þarfir þessa hóps. Hins vegar er líklegra að námskeiðið nýtist frekar þeim unglingum sem reykja minnst og hafa jákvæð viðhorf gagnvart skólanum, samkvæmt rannsóknum hætta þeir frekar en hinir sem reykja meira. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að fá „fiktarana" á námskeið og þá sem reykja lítið.
Í þriðja lagi sýnir reynsla erlendra þjóða að reykingatíðni hjá nemendum lækkar í skólum þar sem boðið er upp á slík námskeið.
Allir sem eru að reyna að hætta að reykja þurfa mikinn stuðning fjölskyldu og vina. Þetta er enn mikilvægara fyrir unglinga og getur skipt sköpum. Í handbókinni eru nefnd dæmi um aðferðir til að afla stuðnings foreldra. Þátttaka á námskeiði á að vera með vitund og vilja foreldra/forráðamanna unglingsins ef hann er yngri en 18 ára. Námskeiðin eru á vegum skólans og skólanum ber að upplýsa foreldra um málefni nemenda sem eru ekki sjálfráða.
Aðferðir við að hætta að reykja eru eins margar og misjafnar og fólkið sem reynir að hætta. Hver og einn velur þá leið sem hentar honum best. Fólk sem hjálpar öðrum að hætta að reykja þarf að vera vel upplýst um árangursríkar aðferðir og vera reiðubúið að styðja þann sem vill hætta í þeirri aðferð sem hann kýs sjálfur.
Ítarefnislisti um ýmsa þætti sem tengjast námskeiðinu og reykingum er aftast í handbókinni. Einnig er þar yfirlit yfir annað ítarefni og má benda sérstaklega á námsefnið Að ná tökum á tilverunni og Vertu frjáls - reyklaus.
Hefti þetta er byggt á bókinni Adolescent Smoking Cessation in Schools með góðfúslegu leyfi Ulster Cancer Foundation í Belfast. Við vonum að það komi öllum að gagni er vilja leggja þeim unglingum lið sem vilja hætta að reykja.