Þessi grein ætti ef til vill að fara undir “áhugamálið” Tóbak en það er víst ekki hægt.
Ég vil bara benda á að tóbakslög á Íslandi eru algjörlega út úr kortinu. Eitt er bannað og hitt er leyft. Sjálfur á ég það til að anda að mér reyknum, setja í vörina og taka í nefið. Mér finnst þetta gott. Ég borga fyrir þennan hættulega munað mjög hátt verð. Megnið af sígarettupakkanum eru skattar. Ég veit það. Ég borga háa skatta af neyslu minni. Ég veit hvaða áhrif þetta hefur á líkamann. Ég er ekki fáfróður. Ef kemur að skuldadögum þá ásaka ég engan nema sjálfan mig.
Af hverju má ég ekki á löglegan hátt njóta tóbaks í vör eða nef og á sama hátt bera ábyrgð á eigin heilsu og ef til vill bara borga háa skatta af þess konar tóbaksneyslu líka? Af hverju þarf ríkið að banna mér eina tegund tóbaksneyslu en ekki aðra? Voru skatttekjur ríkisins af nef- og munntóbaki ekki nægilegar til að réttlæta lögmæti þess? Af hverju var reyktóbak ekki bannað líka? Tímdi ríkið ekki að missa þær skatttekjur úr höndunum?
Að banna hluti þýðir ekki að þeir hverfi. Þeir hverfa bara af yfirborðinu. Með handaveifingu get ég útvegað mér tóbak í nef og munn. Ríkið veit það kannski en getur sagt með blendinni samvisku við fjölmiðla að “engin” munn- og neftóbaksnotkun sé á Íslandi. Sjálfstæði Íslendinga til að ráða líkama sínum sjálfir og bera ábyrgð á sér sjálfir er skert.
Svo er önnur umræða varðandi kostnað samfélagsins af minni heilsuspillandi iðju. Ég velti fyrir mér hvort sjúkratryggingakerfi í stað almannatryggingakerfis mundi ekki gera fólki kleift að ráða yfir eigin líkama og bera ábyrgð á kostnaði vegna þess. Sem reykingamanni væri mér td. bara gert að borga hærri sjúkratryggingar í stað þess að allt samfélagið borgi brúsann þegar ég ligg farlama á Vífilsstöðum með rotnandi lungu.