Þetta er copy/paste af vísir.is .En mér finnst eins og fleiri ættu að vita þetta.


Eitt af hverjum hundrað börnum skaðast vegna þess að móðirin hefur neytt áfengis á meðgöngu. Þá getur jafnvel lítil drykkja leitt til námserfiðleika og andlegra truflana.

Skaðinn sem áfengisneysla móður getur valdið ófæddu barni hennar getur orðið mjög mikill. Sé áfengis neytt á fyrstu vikum meðgöngu getur það komið fram sem vansköpun í andliti, smár vöxtur barnsins og jafnvel greindarskortur. Áhrifin eru önnur þegar áfengi er drukkið á seinni hluta meðgöngu. Þá eru afleiðingar oft námserfiðleikar, hegðunarvandamál, minnisvandamál, athyglisbrestur og ofvirkni að sögn Sólveigar Jónsdóttur, taugasálfræðings og eins helsta sérfræðings landsins um málið. Hún segir þetta erfiðleika sem barnið þurfi að lifa við alla ævi því þetta eldist ekki af því.

Sólveig segir komið hafa í ljós að tíðni þessara einkenna er hærri í þeim löndum þar sem áfengisneysla er meiri. Rannsóknir í Bandaríkjunum og Svíþjóð hafi sýnt að u.þ.b. níu af hverjum þúsund börnum bera þessi einkenni og sé ekki óvarlegt að ætla að hið sama eigi við hér á landi. Margir telja að þessi skaði sé bundinn við ofdrykkju en rannsóknir hafa sýnt ótvírætt að lítil eða hófleg drykkja getur einnig valdið skaða. Verðandi mæður eru því eindregið varaðar við því að neyta áfengis, bæði á meðgöngu og meðan barnið er á brjósti.