Félagsfælni hjá mér má líkja við alkólisma eins og ég þekki hann. Þrátt fyrir allt sem gerist í lífi mínu þá er sjúkdómurinn alltaf til staðar. Þrátt fyrir að ég eigi mjög góðan dag í dag er það ekki ávísun upp á jafn góðan dag á morgun. Þannig lifi ég einn dag í einu og reyni að takast á við vandamál mín með samvisku og hreinskilni.
“Í mínu tilfelli má ekki kalla þetta fælni, ég les reynslusögur annarra og sé ekki að ég sé jafn veikur og þau.” Ég geri ráð fyrir því að þessi hugsun fari í gegnum huga minn u.þ.b. allt of oft á dag, og er þetta einn af bræðrum alkólismanns á vappi. Það sem þetta gerir er að auka á óttann sem er þegar erfiður viðureignar. Óttinn við að takast á við vandamálið eykst stöðugt ef þessari hugsun er ekki útrýmt.
Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf átt við þetta vandamál að stríða. Sem ungur krakki var þetta verst þar sem maður er skelfilega viðkæmur á þeim aldri. Ekkert mátti gerast og ég var orðinn að sólþurkuðum tómati sem enginn botnaði í. Og þó leit maður ekki á þetta þá sem fælni, bara ofsaleg feimni sem hlyti nú að fara með aldrinum. Þó varð ég aldrei fyrir einelti sem krakki sem má þakka góðum og traustum vinahóp þá og ekki varð ég fyrir neinu sálrænu áfalli sem má bendla við þennann sjúkdóm. Þá hlýt ég að gera ráð fyrir því að þetta sé í blóðinu því pabbi var svona líka.
Núna í dag líður mér vel og þegar ég lít til baka sé ég hversu stór þáttur þessi sjúkdómur hefur átt í lífi mínu. Í dag get ég sagt að ég sé ekki fælinn. Ég loka mig ekki inni í þeim tilgangi að mér líði vel einn og yfirgefinn. Ég tekst á við flest allt sem ekki bara hrjáir mig heldur ögrar mér og það er sú lausn sem ég hef notfært mér gegnum tíðina. Fyrst núna er ég almennilega farinn að skilja þennan sjúkdóm og virða. Það gerist að þær aðstæður spretti upp að ég hverfi til fortíðar, mismunandi að styrk og alvarleika. Ég er kannski á vappi um kringluna og ég stend ekki í lappirnar af stressi eða ég fer út í búð og veit ekki hvað ég heiti þegar daman bregður útaf venjunni kannski og spyr mig hvort hún kannist nú ekki eitthvað við mig. Sem betur fer eru þau orðin fá skiptin sem ég fer alveg í kleinu og ef eitthvað af þessum smávægilegu, neyðarlegu hlutum eiga sér stað lít ég bara til baka og hlæ að þessu.
Síðast en ekki síst vill ég koma að þeim ranghugmyndum sem maður gefur sér sem gætu kannski tengst félagsfælninni sem ég vona að einhver getur svarað. Ég td. gef mér það að ég liggi undir grun um eitthvað þótt gersamlega engin ástæða sé til. Ég kannski hitti einhvern sem ég þekki, fer að spjalla við hann/hana og útaf einhverju sem hann/hún sagði fer ég í kerfi vegna þess að í rauninni gæti ég hafa átt þátt í kannski segjum að sími hans/hennar var stolið. Að öðru dæmi.. ég kem heim seint, kannski um 1-2 eftir pool eða bíó og á heimleiðinni fer ég að spá í það að þetta sé nú hálfgrunsamlegt að ég sé alltaf að koma svona seint heim á virkum dögum. Áður en ég veit af er ég farinn í klessu og er ekkert ég sjálfur fyrir framan foreldra mína sem þekkja mig eins og handabak sitt. Þessi þáttur hefur fengið mig hvað mest til að hugsa um það hvað sé nú í gangi. Er þetta tengt félagsfælni eða er þetta eitthvað annað?
Takk fyrir mig.