Með því að þrýsta náttkjólnum hennar að vitum þér getur þú komist að því hvort hún sé frjósöm kona. Bandarískir vísindamenn komust að þessu með því að láta karlmenn lykta af bolum kvenna sem þær höfðu sofið í á mismunandi tímabilum tíðahringsins.
Konur ilma
Tilgangur umræddrar könnunar var sá að uppgötva hvernig lykt konan gefur frá sér þegar hún hefur egglos. Niðurstöðurnar létu ekki á sér kræla - karlmanninum þykir lyktin af konu með egglos vera sérlega góð og vera kynþokkafyllri en á öðrum tímum.
Könnunin sem framkvæmd var í Háskólanum í Texas fór þannig fram að 17 konur voru beðnar að sofa í sama bolnum í þrjár nætur yfir frjósamasta tímabil tíðahringsins. Til samanburðar sváfu þær í öðrum bol í aðrar þrjár nætur á síður frjósömu tímabili tíðahringsins.
Konurnar máttu ekki nota ilmvötn, sápunotkun var ekki leyfð, enginn kryddaður matur og að sjálfsögðu máttu þær alls ekki eiga kynmök á tímabilinu eða nota getnaðarvarnapillu.
Bolirnir voru númeraðir og lagðir fyrir 52ja manna hóp karlmanna og þeir beðnir að meta styrkleika lyktarinnar eftir því hve þeim þótti lyktin góð og hve kynþokkafull hún verkaði á þá.
Niðurstöðurnar voru eftirtektarverðar og kom á óvart hve þeir, karlmennirnir, kunnu betur að meta ilminn af bolum kvenna sem voru hvað frjósamastar. Já, við látum ekki að okkur hæða ! Þar sem kvenmaðurinn gengur í gegnum miklar hormónabreytingar meðan á tíðahringnum stendur er það ekki að undra að líkamslykt hennar sé breytist að því í samræmi við það.
Niðurstöðurnar eru alls ekki í hrópandi mótsögn við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á tíðahring kvenna. Það er t.d. vitað að húð kvenmanna verður örlítið ljósari á egglostímabilinu og að brjóstin samsvari sér betur. Þá hefur ein rannsókn rennt stoðum undir að konur séu meira áberandi í klæðnaði á tímabilinu.
Dýrið í okkur
Þessar niðurstöður eru í samræmi við mikilvægi lyktarskyns í pörunarleik dýranna. Þrátt fyrir að mannfólkið hafi verið iðið við að draga úr allri líkamslykt með tilbúnum ilmvörum hafa glöggir framleiðendur rekið sig á að hin eina sanna lykt sem laðar okkur að hverju öðru er sú lykt sem við gefum frá okkur. Því er reynt að þróa lykt sem líkir eftir þeim kynhormónum sem við gefum frá okkur. Því þegar öllu er á botninn hvolft erum við hluti af dýraríkinu.