Flestir finna einhvern tíma ævinnar fyrir óþægindum sem lýsa sér með verkjum í mjóhrygg sem leiða stundum út í fætur.
Óþægindin geta komið til af óheppilegri beitingu líkamans, til dæmis þegar þungum hlut er lyft með röngu átaki eða þegar reynt er á hrygginn með óhóflegu álagi. Stundum er þó engin augljós orsök greinanleg.
Stundum koma þessir verkir mjög skyndilega og þá er talað um þursabit (skessuskot). Óþægindin hverfa venjulega á 1-2 vikum.
Í öðrum tilvikum eru verkirnir vægir og langvinnir og oft reynast þeir þrálátir.
Ef verkirnir leiða út í fætur er talað um brjósklos og stafa þeir oftast af þrýstingi á settaug.
SPURNINGAR OG SVÖR
Hvenær á ég að leita til læknis?
ef þú færð bakverk sem sótthiti fylgir.
ef þú grennist og eða finnur fyrir þreytu sem tengist bakverkjum.
ef saman fara erfiðleikar við þvaglát og bakverkir.
ef þú verður máttlaus eða finnur fyrir dofa í fótum.
ef þú færð þráláta bakverki eftir að sextugsaldri er náð, en hefur ekki fundið fyrir þeim áður.
ef barn kvartar undan bakverkjum.
ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni.
HVAÐ GET ÉG GERT ?
Forðastu að lyfta þungum hlutum.
Forðastu hreyfingar sem reyna mikið á mjóbakið og sem valda sársauka.
Reyndu að fara í gönguferðir þegar þú getur.
Hvíldu þig í þannig stellingu að þú finnir sem minnst fyrir verkjum, t.d. með fætur á púða og dregna upp að búknum.
Ráðfærðu þig við lækni.
GET ÉG FENGIÐ LYF ÁN LYFSEÐILS ?
Ef þú finnur mikið til í bakinu getur þú tekið verkjalyf sem fást án lyfseðils. Þessi lyf hafa öll áþekka verkun. Taktu ekki meira en tvær töflur í einu og ekki oftar en segir á lyfjaumbúðunum. Þótt þú takir stærri skammt en gefinn er upp linar það ekki sársaukann meira en hámarksskammturinn. Ef margar verkjatöflur eru teknar á sólarhring geta ýmiss konar alvarlegar aukaverkanir komið fram.
Lyf sem innihalda íbúprófen eru sennilega besti kosturinn, þ.e. Íbúfen, Ibumetin og Nurofen. Ef ekkert mælir gegn því getur þú tekið verkjatöflur sem innihalda asetýlsalisýlsýru, s.s. Acetard, Asetýlsalisýlsýru Delta, Globentyl, Magnyl töflur, Novid eða Treo freyðitöflur.
Ef þú ert með magasár eða hefur verið með það, ert með astma eða ert viðkvæmur fyrir asetýlsalisýlsýru gætir þú reynt að taka Parasetamól, t.d. Panodil eða Paratabs.
Ef ofangreind lyf slá ekki á verkinn reyndu þá önnur lyf, s.s. Íbúkód, Parkódín eða Kódimagnýl. Leitaðu þó fyrst ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi.
HVAÐ GET ÉG GERT Í FORVARNARSKYNI ?
Hreyfðu þig!
Komdu þér í gott form með reglulegri hreyfingu. Veldu þér hreyfingu sem þú hefur gaman af (gönguferðir, hjólreiðar, sund). Það er auðveldara að ráða bót á bakverkjum ef viðkomandi er vel á sig kominn líkamlega og er í andlegu jafnvægi.
Stundaðu líkamsrækt!
Það reynist vel að þjálfa kvið- og fótavöðva, því að það reynir á þá þegar við lyftum einhverju.
Lyftu rétt!
Ef þú þarft að lyfta hlut skaltu halda honum eins nálægt líkamanum og þú getur og nota lærvöðvana meira. Það minnkar álagið á bakið.
Aflaðu þér fræðslu!
Lestu þér til um vinnutækni og réttar vinnustellingar. Þú færð upplýsingar um þetta hjá heimilislækni þínum.