Mig langar til að segja ykkur frá augnaðgerð sem ég fór í sl. föstudag hjá Lasersjón. Ég fór ekki í algengustu aðgerðina sem kallast Lasik, heldur varð ég að fara í dýrari aðgerð sem kallast Zyoptix, þetta var vegna þess að ég er með svo stór sjáöldur og því meiri líkur á því að nætursjónin hefði aflagast ef ég hefði farið í venjulega aðgerð. Eftir að hafa farið í skoðun deginum áður og fengið grænt ljós á aðgerð mætti ég klukkan 9 um morguninn. Það var tekið vel á móti mér og ég leidd inn á biðstofu þar sem ég klæddist slopp og fékk húfu til að hafa yfir höfðinu. Mér voru boðnar róandi, en ég afþakkaði þar sem ég þykist hafa ótrúlega stjórn á stillingu minni. Eftir að hafa verið sótthreinsuð í kring um augun og fengið sótthreinsandi dropa kom læknirinn (Eiríkur Þorgeirsson) og útskýrði fyrir mér hvernig aðgerðin gengur fyrir sig.
Eftir smá bið fór ég inn á stofuna og lagðist á bekk. Ég var sett undir nokkurskonar smásjá sem læknirinn horfði í gegn um. Ég þurfti að einbeita mér að því að horfa í rautt ljós sem blikkaði á meðan allri aðgerðinni stóð. Eftir að hafa fengið fleiri dropa í augun var sett plast yfir andlitið með gati fyrir augað og límt fyrir hitt augað. Þetta voru meðal annars dropar sem staðdeyfa augað til þess að ég myndi ekki finna fyrir sársauka á meðan aðgerðinni stóð. Því næst var sett spenna í augað, hún líktist helst lítill járnkló…erfitt að lýsa henni. Þetta var gert til að halda auganu opnu. Settur var nokkurskonar hólkur yfir augað og settur smá sogkraftur á til að lyfta auganu örlítið og flipinn skorinn af. Því næst var leysigeislanum hleypt á. Það eina sem maður var var við var smá hljóð í geislanum. Svo var flipinn settur á sinn stað og fleiri dropar og svo var gengið frá öllu.
Aðgerðin var með öllu sársaukalaus. Einu óþægindin voru þegar auganu var lyft með hólkinum, í raun er hægt að líkja því við þegar maður potar í augað á sér…maður finnur bara smá þrýsting og ekkert meira. Sjálf aðgerðin tók aðeins nokkrar mínútur, eftir nokkurra mínútna bið á meðan læknirinn stillti græjuna upp á nýtt tók við aðgerðin á hinu auganu.
Að lokinni aðgerð var ég leidd inn í biðherbergið þar sem ég fékk að leggjast á bekk með teppi og kodda og slaka á. Ég fékk strax tvær parkódín til að koma í veg fyrir hugsanlegan sársauka þegar áhrifin frá deyfilyfinu færu að dvína. Það var litið til mín á nokkurra mínútna fresti til að setja dropa í augun. Þegar klukkan var um tuttugu mínútur í ellefu kom læknirinn og skoðaði augun í mér og sagði svo að ég mætti fara heim. Þar með var ég útskrifuð með tvær auka parkódín í farteskinu og fullan pakka af augndropum.
Það sem mér fannst athygliverðast var að ég var farin að sjá betur strax eftir aðgerðina, að vísu allt í móðu, en samt í fókus. Til að byrja með táraðist ég rosalega og mig sveið svolítið í augun. Þetta voru ekkert óbærileg óþægindi eins og ég hafði búist við…frekar eins og að vera með of gamlar linsur í augunum. Eins var svolítið erfitt að vera með augun opin lengi í einu, mér leið best með þau lokuð. Það er skemmst frá því að segja að um eittleytið sama dag var ég búin að jafna mig það mikið að ég gat haft augun opin án truflana og móðan var að mestu horfin. Um kvöldið voru öll óþægindi horfin og sjónin komin í gott lag. Á laugardagsmorgninum fór ég svo í skoðun aftur þar sem læknirinn mældi í mér sjónina. Þá kom það í ljós að sjónin mín er yfir 100%!!! Ég sem var með -4 áður en ég fór í aðgerðina!!! Þið getið rétt ímyndað ykkur að ég er himinlifandi og hæstánægð með árangurinn. Ég finn ekki fyrir neinum aukaverkunum utan smá þurrks í augunum, sem ég nota bara augndropa við. Ég er enn að berjast við að sannfæra sjálfa mig um að ég hafi ekki farið að sofa með linsurnar, þetta séu bara augun mín og ég þurfi ekkert að hafa áhyggjur af þessu meira.
Fyrir þá sem vilja vita meira um aðgerðina er bent á www.lasersjon.is. Þar eru ítarlegar upplýsingar um aðgerðina og fleira sem henni tengjast. Að lokum vil ég þakka öllu starfsfólki Lasersjón fyrir frábærar móttökur og þjónustu og fyrir að hafa gefið mér sjónina á ný, og foreldrum mínum fyrir að hafa gefið mér aðgerðina í afmælisgjöf. :D Ég get ekki ímyndað mér betri eða stærri gjöf!!! Þúsund þakkir og kossar til ykkar. Að lokum vil ég benda á að læknar og starfsfólk Lasersjónar hafa sjálf farið í laseraðgerð og tel ég það vera góð meðmæli.
I´m a daydreamer and a daydream believer