Allar elskulegu sálir með átröskun….
Mig langar að deila með ykkur svolitlu sem ég prófaði í gær. Ég er ein af þeim sem hef átt minn eigin fitupúka síðan ég man eftir mér. Það hefur alltaf verið erfitt og gert allt annað en gott fyrir allt sjálfsálit.
Ég hef örugglega byrjað svona 100 sinnum í megrun, prófað ótrúlegustu hluti, lést og þyngst til skiptis og ég veit ekki hvað. Það síðasta sem ég lét plata mig útí var að prófa Herbalife og það var ekkert að virka. Ég byrjaði ekki að léttast fyrr en ég hætti að éta það. Húmor.
Ég byrjaði aftur á fullu í ræktinni í haust og það gengur ágætlega, fer svona 4-6 sinnum í viku og voða gaman. Samt hefur mér ekki gengið sem skyldi að borða réttan mat, og trúðu mér ég hef reynt allt.
Það er langt síðan ég frétti af OA samtökunum en hef aldrei mannað mig uppí að fara. Svo rakst ég á bók á skólabókasafninu og fór að lesa og kannaðist við alveg ótrúlega margt þar.
Svo í gærkvöldi lét ég mig hafa það að koma mér af stað. Ég vissi ekker hverju ég átti að búast við og var orðin nokkuð stressuð þegar loksins ég fann staðinn eftir mikla leit. Ég fann þó strax að áhyggjur mínar voru algjörlega af ástæðulausu. Þarna voru nokkrar konur sem tóku vel á móti mér og mér leið mjög vel allan fundinn. Þeir sem þekkja til AA samtakanna ættu að vita hvernig svona fundir eru byggðir upp því þetta er í rauninni alveg það sama - í OA er fíknin bara matur í staðinn fyrir áfengi.
Það er mælt með því að nýliðar fari á a.m.k. 6 fundi áður en þeir gera upp hug sinn um hvort þetta hentar þeim eða ekki og ég ætla sko pottþétt að gera það.
Ég vil bara benda þeim sem eru orðnir ráðþrota í baráttunni við aukakílóin að kíkja á OA fund. Þið getið kíkt inná heimasíðuna oa.is til að sjá fundarstaði og tíma. Þar er líka að finna próf sem hægt er að taka til að sjá hvort þú átt við matarfíkn að stríða og ýmsan fróðleik um samtökin og starfsemi þeirra.
Þú tapar nákvæmlega engu á því að prófa að mæta, annað hvort mætirðu ekki aftur eða ákveður að láta á þetta reyna.
Gangi ykkur vel :)