De Danske Vægtkonsulenter
Ég hef frá barnsaldri þurft að berjast við offitu og hef eiginlega verið í megrun frá því mjög snemma á unglingsaldri með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sjálfsmynd og lítið sjálfstraust. Við þekkjum flest hve öfgakenndir Íslendingar geta verið þegar kemur að nýjungum og eru megrunaraðferðir engin undantekning þar á. Hver töfralausnin á fætur annarri er tekin með trompi og eitt nýjasta dæmið um það er t.d. Atkins-kúrinn. Svo má auðvitað ekki gleyma Herbalife sem er ótrúlega þrautseigt hér á landi.
Ég hef verið í þessum sporum og prófað ótrúlegustu hluti en hef að sjálfsögðu alltaf komið að sama endapunkti: að hætta á kúrnum og fitna aftur. Ég, eins og aðrir, forðaðist að viðurkenna það að ég þyrfti að breyta varanlega um lífsstíl! Það er ekki nóg að fara bara á einhvern tímabundinn kúr.
Síðla sumars gekk ég svo til liðs við De Danske Vægtkonsulenter (DDV), eða dönsku vigtarráðgjafana. DDV var stofnað í Danmörku árið 1981 og eru nú starfrækt í nokkrum löndum. DDV hefur hjálpað fjölda fólks að “borða sig grannt” með hjálp næringarlega rétt samansettrar mataráætlunar.
DDV starfar þannig að eftir að maður hefur skráð sig til þátttöku mætir maður einu sinni í viku í vigtun. Það er skyldumæting og verður maður því að hafa mjög svo góða ástæðu fyrir að mæta ekki. Að vigtun lokinni er haldinn stuttur fundur sem leiðbeinandinn stjórnar og þar fá meðlimir fræðslu og stuðning og geta skipst á ráðum. Það er valfrjálst hvort maður situr fund eða ekki en það er gott til að halda manni við efnið að sitja fundina, a.m.k. öðru hverju. Þeir veita manni aukinn innblástur. Leiðbeinendur DDV eiga allir það sameiginlegt að hafa sjálfir grennst með hjálp DDV og haldið þeim árangri.
Mataræðið er undirstaðan í DDV. Það er yfirfarið og viðurkennt af næringarfræðingum og fullnægir þörf líkamans á próteinum, vítamínum og steinefnum þrátt fyrir að orkuinntakan (hitaeiningafjöldinn) sé minni. Nánast allur matur er leyfður, að sykri undanskyldum. En kjöt, fiskur, brauð, mjólkurvörur, ávextir og fullt af grænmeti er undirstaðan í mataræðinu. Hins vegar verður maður að fylgja reglum um magn og lærir þannig í raun að borða upp á nýtt!
Þetta opnaði augu mín algjörlega fyrir því hvað ég hafði verið að gera rangt. Ég hef svo sem lengst af vitað það og er nánast sérfræðingur í næringarfræði, en eins og þeir sem eru of þungir kannast við þá er ekki jafn auðvelt að lifa eftir því. DDV veitir manni innblástur og aga til að skipuleggja mataræði sitt upp á nýtt.
Á þeim 12 vikum sem liðnar eru síðan ég breytti um lífsstíl hef ég lést um 9,2 kg og fullt af sentimetrum hafa fokið. Þessum árangri hef ég náð án þess að auka við mig hreyfingu, en ég stefni á að taka hreyfinguna inn í lífsstílinn smám saman.
Hreyfing er holl og nauðsynleg en þegar maður þarf að grennast um a.m.k. 30 kg getur verið erfitt að fara af stað í líkamsrækt. Að mínu mati er einnig vænlegra til árangurs að breyta ekki of miklu í lífi sínu í einu því ef maður ætlar sér of mikið er líklegra að manni mistakist. Ég tel því betra að venja sig t.d. á breytt mataræði og gera það að lífsstíl og svo þegar það er orðið eðlilegur hluti af lífinu getur maður tekið hreyfingu og líkamsrækt smám saman inn í lífið.
Á þessum 12 vikum hef ég heldur aldrei orðið svöng og finnst mér það mjög góð breyting frá megrunarkúrunum. Þvert á móti á ég stundum erfitt með að klára dagskammtinn minn af mat! Ég veit fyrir víst að ég mun ekki eiga í erfiðleikum með að lifa eftir grundvallarreglum DDV þegar ég verð komin í kjörþyngd, því þetta mataræði hefur opnað augu mín fyrir hollari, en samt ekki leiðinlegri, lífsháttum. Þetta er allt spurning um skipulagningu.
Það verður haldnir 2 kynningarfundir á vegum DDV núna í vikunni:
fimmtudaginn 6. nóvember kl. 20 og
föstudaginn 7. nóvember kl. 17.
Fundirnir verða haldnir í húsnæði Domus Vox, Skúlagötu 30, 2. hæð.
Einnig eru teknir inn nýir meðlimir í hverri viku:
Á miðvikudögum eru fundir í Safnaðarheimilinu Kirkjulundi í Garðabæ þar sem nýir meðlimir mæta milli kl. 19:00-19:30.
Á fimmtudögum eru fundir fyrir byrjendur á Skúlagötu 30, 2. hæð, á sama tíma.
Það hefur veitt mér mikinn innblástur að skoða heimasíðu DDV og þá sérstaklega að skoða “Fyrir & eftir” síðuna en einnig er gaman að lesa um ráðgjafana (konsulenterne); þetta myndarlega, granna og heilbrigða fólk sem hefur lést um 10-50 kg með hjálp DDV!
Hér er slóðin: http://www.vaegtkonsulenterne.dk
Crayola – sem verður komin í kjörþyngd í apríl ;)