Ég er alltaf að reyna að leita að einhverju til að hjálpa mér til að halda mig frá namminu. Bananar, vel þroskaðir, dísæt vínber, voru ágæt en maður getur fljótt fengið leið á því sama dag eftir dag. Nú er komið nýtt á listann hjá mér, ég smakkaði sykurbaunir í fyrsta skipti um daginn. Við fyrstu smökkun, lokaði ég augunum og fannst ég vera komin upp í sveit innan um ilmandi berjalyng!
Þessar baunir eru ótúlega sætar, ferskar og brakandi að maður getur ekki hætt.
Áætlun mín um að byrja fyrir viku rann auðvitað út í sandinn. Það fundust alveg ótrúlega margar afsakanir í þetta skiptið. Hvernig á ég að fara að því að sparka mér af stað?
Ég hélt að þegar ég flutti í nýju íbúðina mína fyrir 2 mánuðum, þá mundi allt breytast. Ekki síst vegna þess að í holinu þegar maður kemur inn er risastór spegill sem hlífir engu og ég fæ magann upp í háls í hvert sinn sem ég sé sjálfa mig.
Þetta er auðvitað ekkert annað en bölvuð sjálfsvorkun og aumingjaskapur að koma sér ekki af stað út úr húsinu.
Hvernig á maður að losna við sjálfsvorkunn? Það væri fínt að geta bara sagt: “Burt með þig bölvuð!” en þannig virkar það ekki því miður.
Ef einhver nennir að svara þessu, þá vona ég samt að hakkavélarnar verði ekki of grimmar við mig, ég má varla við því.