Vefjagigt Hæ hæ! Mér datt í hug að senda inn grein hingað um sjúkdóminn vefjagigt, smá fróðleikur á mánudagsmorgni;-)


Hvað er vefjagigt?
Vefjagigt er sjúkdómur, semt leggst fyrst og fremst á stoðkerfi líkamans, þ.e. vöðva, vefi, vöðvafestingar, brjósk, o.s.frv.

Einkenni:
Einkenni vefjagigtar eru mörg og mismunandi, en þau algengustu eru krónískir vöðvaverkir, sem geta virkað stingandi, brennandi eða bara mjög aumir. Vöðvarnir geta líka verið mjög stífir, svo það getur t.d. verið erfitt að halda á hlutum. Mikil og stöðug þreyta fylgir vefjagigt, einbeitingarörðugleikar, minnisleysi, niðurgangur/hægðatregða, ógleði, svefnerfiðleikar, óróleiki og stress, þyngdartap eða þyngdaraukning, svimi og kraftleysi, kaldir fingur, þurr augu eða munnur, þarma og blöðruerfiðleikar. Ofan á allt þetta getur svo komið þunglyndi.

Greining:
Því miður þarf oft margar mismunandi rannsóknir til að greina vefjagigt. Þar sem ekki er hægt að greina sjúkdómin með rönten rannsókn eða blóðprufum, neyðist læknirinn til þess að útiloka aðra sjúkdóma með svipuð einkenni. Fyrst þegar því er lokið, er hægt að úskurða vefjagigt. Með rannsóknum, sjúkrasögu og svokölluðum ”tenderpoints”, á að vera hægt að greina vefjagigt örugglega. Tenderpoints eru ákveðnir punktar á líkamanum sem eru aumir ef þrýst er á þá. Ef sjúklingur er með 11 punkta af 18, þá bendir það til vefjagigtar. (Sjá mynd)

Meðferð:
Það er ekki til neitt eitt ákveðið meðferðarúrræði sem hægt er að bjóða vefjagigtarsjúklingum. Sjúklingurinn sjálfur getur þó reynt að bæta lífsgæði sín með því t.d. að fara í sundleikfimi (sem getur létt spennu á vöðvum), stunda slökun, styrktarþjálfun, verkjameðferð, læra réttar vinnustellingar, o.fl. Þessi þjálfun verður þó alveg að fara eftir ástandi sjúklingsins hverju sinni. Líkamsrækt og þolþjálfun getur líka verið góð, einfaldlega vegna þess að það er gott fyrir alla að vera í góðu formi. Hins vegar verður sú þjálfun alveg að byggjast upp eftir þörfum og getu viðkomandi vefjagigtarsjúklings. Ef sjúklingurinn er þunglyndur, verður líka að sinna því með sálfræðimeðferð og/eða lyfjum. Síðast en ekki síst, verður að finna lausn á svefnvandamálum sem eru fastur fylgifiskur sjúkdómsins, og felst sú lausn yfirleitt í lyfjameðferð, ásamt slökun og öðru slíku sem hjálpað getur til með svefn. Góður svefn getur verið grunnurinn að bættu lífi vefjagigtarsjúklings.
Með kveðju,