Nokkur góð ráð við flensu eru hér fyrir neðan og það eru sko MARGIR VEIKIR núna hef ég tekið eftir!!!
Þegar vetrarveðrin herja á heilsuna, er líkaminn veikari fyrir árásum örvera sem geta sett hana hana úr lagi. Slíkar örverur eru umhverfis okkur að staðaldri, en ef ónæmiskerfið veikist, t.d. vegna kulda, verður minna um varnir og líkaminn veikist. Algengustu sjúkdómarnir sem þessar örverur valda eru kvef og flensa. Fjöldi vírusa getur komið af stað sýkingu í efri hluta öndunarfæra og valdið kvefi. Fyrir utan stíflur í öndunarfærum og nefrennsli, fylgir kvefi gjarnan vanlíðan með höfuðverki, hita og jafnvel óþægindum í hálsi. Flensa er öllu verri sjúkdómur með alvarlegri einkennum og meiri vanlíðan. Ýmislegt má gera til að styrkja ónæmiskerfið og draga úr hættu á sýkingu.
Hreyfing, fæða og lífsstíll
Eins og ávallt þegar heilbrigði líkamans er til umræðu, eru mikilvægustu þættirnir að borða heilnæma fæðu og stunda einhverja hreyfingu sem reynir á. Þetta gildir að sjálfsögðu alveg sérstaklega fyrir ónæmiskerfið. Hæfni ónæmiskerfisins til að starfa eðlilega minnkar m. a. við streitu, ófullnægjandi fæðu (t.d. við mikla sykurneyslu), hreyfingarleysi, reykingar, áfengisdrykkju og lyfjaneyslu. Ástand þess ræðst af mörgum þáttum, m.a. geðlægum þáttum, umhverfisþáttum, taugafræðilegum (streitu) og sem fyrr segir næringarfræðilegum. Vísbendingar um áhrif geðlægra þátta á heilsuna aukast stöðugt. Jákvætt lífsviðhorf og lífsgleði eru líkleg til að styðja við heilbrigði ónæmiskerfisins, en lífsleiði, neikvæðni eða áföll aftur á móti brjóta það niður.1 Streituvaldandi þættir geta verið margir, algengt er álag vegna vinnu eða annarra yfirþyrmandi verkefna, en einnig geta sorg eða hliðstætt hugarangur haft veruleg neikvæð áhrif á ónæmiskerfið.2 Á hinn bóginn hefur verið sýnt fram á að gleði, hlátur og aðrir tilfinningalega jákvæðir þættir örva ónæmiskerfið.3 Þetta rennir stoðum undir kenningar Norman Cousin, sem hann setur fram í bók sinni Anatomy of an Illness. Bókin sem kom út 1979 er sjálfsævisaga, þar sem hann gerir að því skóna, að hægt sé að hlægja í sig heilsu. Læknar hlógu hins vegar að þessari kenningu, þegar bókin kom út, en sem fyrr segir fljölgar stöðugt vísbendingum um mikilvægi jákvæðs sinnis og gleði fyrir ónæmiskerfið.
Sólhattur
Helstu varnir líkamans gegn sjúkdómum eru átfrumur (hvít blóðkorn) og mótefni. Mótefni eru prótín sem myndast í líkamanum þegar í hann berst mótefnisvaki t.d.sýklar. Þessar varnir eru hluti af því sem nefnt er ónæmiskerfi. Trúlega er sólhattur lang mest notaða jurtin á vesturlöndum til að efla ónæmiskerfið, enda lang mest rannsakaða jurtin. Í yfir 300 vísindarannsóknum hafa ónæmisstyrkjandi eiginleikar sólhattsins verið athugaðir. Það eru fjölmörg efni í sólhattinum sem stuðla að þessari verkun.4 Meðal þeirra mest ónæmisstyrkjandi eru stórir fjölsykrungar eins og inúlín, sem örva ákveðinn hluta varnarkerfis líkamans og auka framleiðslu efna fyrir ónæmiskerfið auk þess að efla átfrumur (hvít blóðkorn). Þetta leiðir til aukinnar starfsemi fjölmargra þátta ónæmiskerfisins: framleiðslu T fruma, öflugri átfruma og uppbygging mótefna.4
Við tilraunir á músum var staðfest að Cichoriusýra í jurtinni eykur myndun átfruma (sem eyða sýklum og aðskotaefnum) um 40%. Margar tegundir eru til af Echinacea, en öflugasta virkni hefur E. purpurea. Vírusverjandi eiginleikar hennar voru staðfestir í prófun, þar sem frumur meðhöndlaðar með E. purpurea reyndust 50 til 80% ónæmar fyrir vírusum. Vörnin hélst í 24 - 48 klst.5 Echinacea eflir ónæmiskerfið jafnvel í heilbrigðu fólki. Þegar hópur af heilbrigðum karlmönnum var látinn taka sólhatt í 5 daga (30 dropa 3 x daglega) jókst máttur hvítra blóðkorna til að drepa bakteríur (leukocyte phagocytosis) um 120%.6 Auk þess að styrkja ónæmiskerfið, eru efni í sólhattinum sem vinna beint á vírusum og draga einnig úr vexti sýkla með því að halda aftur af sýklaensýminu hyaluronidase. Þetta ensím gefa sýklar frá sér til að brjótast í gegnum fyrstu varnarlínu líkamans, hörund og slímhimnur, svo að örverurnar komist inn í líkamann. Fyrir nokkru var gerð stór tvíblind rannsókn á sólhatti í Svíþjóð af dr. Rose-Marie Brinkeborn við heimilislæknamiðstöð Luthagsgården í Uppsala. Þetta er ein fyrsta rannsóknin sem lyfjaeftirlitið í Uppsala viðurkennir út frá sömu reglum og gilda fyrir rannsóknir á hefðbundnum lyfjum. Fyrst og fremst var verið að rannsaka áhrif sólhatts á kvef og flensu. Sjúkdómseinkenni hurfu greinilega fyrr hjá þeim sem fengu sólhattinn en hinna sem fengu lyfleysu (placebo) og batinn var hraðastur hjá þeim sem fengu stóran skammt. Þetta eru sömu niðurstöður og eldri rannsóknum, m.a. tvíblindri rannsókn með 108 kvefuðum einstaklingum í 8 vikur. Þeir sem fengu sólhatt voru fljótari að ná sér en hinir sem fengu lyfleysu, sýktust sjaldnar, fengu vægari einkenni, auk þess sem verulega hærra hlutfall einstaklinga slapp alveg við að veikjast. Sólhatturinn gagnaðist best þeim sem lélegastir voru fyrir.7
Ólífulaufsþykkni
Fyrstu rituðu heimildir um ánægjuleg skilaboð sem tengjast ólífulaufum, er frásögnin af því þegar dúfa kom með laufgaðan ólífukvist í örkina hans Nóa til merkis um að flóðið hafði rénað. Nútíma vísindi hafa hins vegar önnur skilaboð sem tengjast ólífulaufum, ekki síður ánægjuleg, því í laufunum er efni - oleuropein - sem er mjög virkt gegn sveppum, vírusum, sýklum og reyndar einnig gegn snýklum. Athyglisvert er að Egyptar til forna notuðu ólífulauf sem smyrsl á múmíur konunga, en einnig sem meðal við hitasóttum. Oleuropein veldur vírusum marvíslegum truflunum: það rýfur amínósýrumyndun vírussins, hamlar skiptingu hans og það veikir ensímin sem vírusinn þarf, til að brjótast inn í heilbrigðar frumur. Oleuropein efni var rannsakað hjá bandaríska lyfjarisanum Upjohn og þar fundu vísindamenn, að það vann á öllum vírusum sem þeir prófuðu það á, en þeirra á meðal voru herpes, inflúensa A og parainfluensa 3, auk fjölda annarra. Töldu vísindamennirnir að efnið veikti svo prótínhimnu vírussins, að hann náði ekki að valda sýkingu.8 Ólífulaufsþykkni er því góð hjálp til að halda sér heilbrigðum í skammdeginu.
Greipaldinkjarnaþykkni (GKÞ)
Það var upp úr 1990 sem farið er að nota GKÞ í náttúrulækningum að einhverju marki í Bandaríkjunum. Samkvæmt prentuðum heimildum er efnið virkt gegn yfir 800 tegundum af bakteríum og veirum, 100 tegundum af sveppum og all nokkrum fjölda sníkla. Í Journal of Orthomolecular Medicine (Vol. 5, No.3 USA, 1990) er greint frá rannsókn alþjóðlegs teymis vísindamanna, þar sem áhrif GKÞ á 770 tegundir baktería og 93 tegundir sveppa voru könnuð í samanburði við 30 tegundir sýklalyfja og 18 viðurkennd sveppalyf. GKÞ reyndist ótrúlega virkt á bæði sýkla og sveppi. Ótal læknar hafa gefið GKÞ afar lofsverða umsögn, sem kristallast í orðum Dr. Klaus Kustermann, M.D. frá Baden Baden í Þýskalandi, en hann segir: “Að mínu áliti er GKÞ alfarið besta og áhrifaríkasta sýklalyf og sveppaeyðir sem náttúran hefur gefið okkur.” Frekari upplýsinar um GKÞ (Grapefruit Seed) má finna á: www.nutriteam.com og www.alternativemedicine.com
Hvítlaukur
Lækningamátt hvítlauks kannast flestir við og margir nota hvítlaukshylki að staðaldri. Hvítlaukur er talinn styrkja ónæmiskerfið og stuðla að vörn gegn umgangspestum. Þegar, árið 1858 sannaði Louis Pasteur bakteríudrepandi eiginleika hvítlauksins. Hvítlauk fylgir ævinlega hin einkennandi hvítlaukslykt, sem fólk er mishrifið af. Menn hafa fundið svar við þessu með því að þróa aðferð til að framleiða lyktarlaus hvítlaukshylki, svo hægt sé að njóta gagnsemi hvítlauksins án þess að trufla náungann.
C-vítamín
C-vítamín er sennilega eitt mest notaða náttúrumeðal gegn kvefi og flensu. Sumir hafa tröllatrú á því, sbr. nóbelsverðlaunahafann Linus Pauling en aðrir vilja meina að það sé gagnslaust. Sannleikurinn er sennilega einhvers staðar þar á milli. Fjöldi rannsókna sýnir að 1000 mg af C-vítamíni á dag og stærri skammtar, draga úr einkennum kvefs og stytta þann tíma sem sjúkdómurinn varir.10 Svo virðist af reynslu, sem það dugi að nota stóra skammta af C-vítamíni um leið og sjúkdóms verður vart, til að draga úr einkennum og flýta fyrir bata.
Própólis
Propolis er kvoðukennt vax sem býflugur nota til að styrkja bú sín og halda bakteríum og sveppum í skefjum. Própólis er í bývaxinu og er ein af vörnum býsamfélagsins gegn örverum. Þannig eru íbúar býkúpunnar varðir gegn sjúkdómum. Propolis hefur verið notað til lækninga frá fornöld. Um 400 f. Krist var það kynnt af Grikkjanum Herodot sem mælti með vaxinu í smyrsl á sár og ígerðir. Á 1. öld e. Krist skýrði Rómverjinn Herodot Gajus Plinius frá þeim mörgu læknandi eiginleikum sem propolis hefur, í sínu fræga riti “Historia naturalis”. Rannsóknir benda til þess að propolis styrki ónæmiskerfið og flýti fyrir myndum mótefna.
Ginseng
Ginseng hefur verið notað um aldur til að auka þrek og bæta þol. Nú hafa vísindamenn komist að því að það eflir einnig ónæmiskerfið. Tvíblind rannsókn var gerð á hópi 227 einstaklinga við 3 læknastofur í Mílano á Ítalíu. Eftir mánaðar meðferð fengu allir, bæði ginseng- og lyfleysuhópurinn flensusprautu. Niðurstaða rannsóknarinnar var að aðeins 15 veiktust úr ginseng hópnum en 42 úr lyfleysuhópnum og það sem mönnum fannst einkar athyglisvert var að magn mótefna hækkaði meira í ginsenghópnum við bólusetningu en hjá lyfleysuhópnum.9
Fjallagrös
Fjallagrös eru einkum notuð gegn þrautum í efri öndunarfærum svo sem hósta og hæsi, sem gjarnan fylgja kvefi og flensu. Er þá lagað seyði sem má sæta með hunangi eða hrásykri.
Jurtate
Fjöldi jurta kemur að gagni í flensutíð og hafa verið settar saman góðar blöndur sem ágætt er að nota þegar kvef og flensa herja á og hálsinn verður aumur. Þær má finna undir nöfnum eins og Cold Season, Throat Comfort eða Breath Deep.
Baðolíur
Gott er að fara í vel heitt bað með góðri baðolíu og hjálpa líkamanum að “kynda” úr sér pestina. Jurtir sem oftast eru notaðar í slíkar baðolíur eru t.d. eucalyptus, tímían og mynta, en einnig eru til blöndur af sérvirkum olíum fyrir svona böð.
Fjölvítamín
Að lokum skal þess getið að fjölmörg bætiefni önnur en þau sem hér eru talin, eru ónæmiskerfinu mikilvæg og stuðla að góðri vörn gegn umgangspestum. Má þar nefna beta karotín, sink, mörg B-vítamín, E-vítamín og fleiri. Því er ráðlegt að nota gott fjölvítamín að staðaldri, ekki síst á veturna.
___________________________________________________ _________
yrsag