Það er mikið um að fólk fái kvef og svona yfir vetratímann og ég fann þessa grein inn á heilsa.is og ákvað bara að skella henni inn á þetta áhugamál það er líka svo langt síðan seinasta grein var…
Eins og ávallt þegar heilbrigði líkamans er til umræðu, eru mikilvægustu þættirnir að borða heilnæma fæðu og stunda einhverja hreyfingu sem reynir á. Þetta gildir að sjálfsögðu alveg sérstaklega fyrir ónæmiskerfið. Hæfni ónæmiskerfisins til að starfa eðlilega minnkar m. a. við streitu, ófullnægjandi fæðu (t.d. við mikla sykurneyslu), hreyfingarleysi, reykingar, áfengisdrykkju og lyfjaneyslu. Ástand þess ræðst af mörgum þáttum, m.a. geðlægum þáttum, umhverfisþáttum, taugafræðilegum (streitu) og sem fyrr segir næringarfræðilegum. Vísbendingar um áhrif geðlægra þátta á heilsuna aukast stöðugt. Jákvætt lífsviðhorf og lífsgleði eru líkleg til að styðja við heilbrigði ónæmiskerfisins, en lífsleiði, neikvæðni eða áföll aftur á móti brjóta það niður. Streituvaldandi þættir geta verið margir, algengt er álag vegna vinnu eða annarra yfirþyrmandi verkefna, en einnig geta sorg eða hliðstætt hugarangur haft veruleg neikvæð áhrif á ónæmiskerfið. Á hinn bóginn hefur verið sýnt fram á að gleði, hlátur og aðrir tilfinningalega jákvæðir þættir örva ónæmiskerfið. Þetta rennir stoðum undir kenningar Norman Cousin, sem hann setur fram í bók sinni Anatomy of an Illness. Bókin sem kom út 1979 er sjálfsævisaga, þar sem hann gerir að því skóna, að hægt sé að hlægja í sig heilsu. Læknar hlógu hins vegar að þessari kenningu, þegar bókin kom út, en sem fyrr segir fljölgar stöðugt vísbendingum um mikilvægi jákvæðs sinnis og gleði fyrir ónæmiskerfið.
5 góðar aðferðir til að losna við kvefið…
-Hvítlaukur
Lækningamátt hvítlauks kannast flestir við og margir nota hvítlaukshylki að staðaldri. Hvítlaukur er talinn styrkja ónæmiskerfið og stuðla að vörn gegn umgangspestum. Þegar, árið 1858 sannaði Louis Pasteur bakteríudrepandi eiginleika hvítlauksins. Hvítlauk fylgir ævinlega hin einkennandi hvítlaukslykt, sem fólk er mishrifið af. Menn hafa fundið svar við þessu með því að þróa aðferð til að framleiða lyktarlaus hvítlaukshylki, svo hægt sé að njóta gagnsemi hvítlauksins án þess að trufla náungann.
-C-vítamín
C-vítamín er sennilega eitt mest notaða náttúrumeðal gegn kvefi og flensu. Sumir hafa tröllatrú á því, sbr. nóbelsverðlaunahafann Linus Pauling en aðrir vilja meina að það sé gagnslaust. Sannleikurinn er sennilega einhvers staðar þar á milli. Fjöldi rannsókna sýnir að 1000 mg af C-vítamíni á dag og stærri skammtar, draga úr einkennum kvefs og stytta þann tíma sem sjúkdómurinn varir.10 Svo virðist af reynslu, sem það dugi að nota stóra skammta af C-vítamíni um leið og sjúkdóms verður vart, til að draga úr einkennum og flýta fyrir bata.
-Fjallagrös
Fjallagrös eru einkum notuð gegn þrautum í efri öndunarfærum svo sem hósta og hæsi, sem gjarnan fylgja kvefi og flensu. Er þá lagað seyði sem má sæta með hunangi eða hrásykri.
-Jurtate
Fjöldi jurta kemur að gagni í flensutíð og hafa verið settar saman góðar blöndur sem ágætt er að nota þegar kvef og flensa herja á og hálsinn verður aumur. Þær má finna undir nöfnum eins og Cold Season, Throat Comfort eða Breath Deep.
-Baðolíur
Gott er að fara í vel heitt bað með góðri baðolíu og hjálpa líkamanum að “kynda” úr sér pestina. Jurtir sem oftast eru notaðar í slíkar baðolíur eru t.d. eucalyptus, tímían og mynta, en einnig eru til blöndur af sérvirkum olíum fyrir svona böð.
Það er jú svo lítið pirrandi að vera með kvef svona yfir vetratímann og gott að losna við það :)