Sjálfsöryggi; fimm leiðir til að öðlast meira sjálfsöryggi.
Á femin.is má finna skoðanakönnun um sjálfsöryggi og niðurstöðurnar eru skýrar. Aðeins 2% kvenna eru mjög sjálfsöruggar og 26% eru öruggar með sig. Í ljós kom að 56% eru sæmilega öruggar með sig og 14% eru óöruggar. Þetta er ekki nógu gott. Hér á eftir eru nokkrar leiðir til að bæta sjálfsöryggi okkar sem ég held að gott væri að fylgja. Allt sem getur hjálpað er af hinu góða, ekki satt.
Við óskum þess allar að búa yfir góðu sjálfsöryggi. Til lengri tíma litið, þýðir það að trúa meira á okkur sjálfar og okkar val, og njóta árangurs okkar í samböndum og framkvæmdum. Til skamms tíma litið væri gott að fá smá uppörvun daglega til að auka sjálfsöryggi okkar til lengri tíma. Prófaðu eftirfarandi aðferðir og þér fer að líða betur strax í dag.
1. Notaðu líkamann. Veldu stigann í stað lyftunnar. Leggðu bílnum þínum lengra frá og gakktu. Hjólaðu eða syntu svo þú svitnir svolítið. Líkamsæfingar hreinsa huga og lungu. Þú eykur styrk þinn og þol og færð góða útrás fyrir reiði og ergelsi. Þú verður orkumeiri og staðreyndin er sú að orka er aðdráttarafl. Það er ekkert sem bætir útlit okkar eins mikið og roði í kinnum og að vera léttur á fæti. Drífðu þig því á fætur og komdu blóðrásinni ærlega af stað.
2. Athugaðu hvernig þú klæðist.
Það er það sem aðrir sjá fyrst. Allt sem þú klæðist sýnir smekk þinn og stíl. Ef þú klæðir þig á óviðeigandi hátt munu félagar þínir efast um dómgreind þína og getu á sumum sviðum. Þegar þú íhugar hvernig þú átt að klæðast, spurðu þá sjálfa þig: Hvernig vil ég koma öðrum fyrir sjónir? Hvaða fólki vil ég ganga í augun á? Við erum ekki að tala um að þú þurfir að vera klædd eftir nýjustu tísku eða þurfir að klæðast dýrum fatnaði, við erum bara að tala um að þú klæðir þig smekklega eftir aðstæðum.
Og mundu að það eru fjögur lykilatriði:
· Að fötin passi þér. Ekki vera í fötum sem eru of lítil og þröng eða of stór.
· Hreinlæti. Þvottur og þurrhreinsun getur eyðilagt föt, en vertu viss um að fötin þín séu hrein og ekki krumpuð og teygð.
· Skór. Það taka allir eftir skófatnaði, aðallega þegar við erum óstyrkar og horfum niður. Vertu í óslitnum og vel burstuðum skóm.
· Brostu. Breitt bros hjálpar okkur við að líða vel með sjálfar okkur.
3. Dragðu andann djúpt. Stattu kyrr og finndu skjól innra með þér. Það er svo mikill asi í okkar nútímaþjóðfélagi og áreiti allt um kring. Þá er mikilvægt að staldra aðeins við, anda djúpt og finna þögnina innra með okkur. Ef þú einbeitir þér ekki að því að finna hver þú ert að innan þá bætir þú bara á kaosið að utan.
Það er mjög sniðugt að læra “kviðöndun”: Leggstu á gólfið og settu hendurnar á kviðinn. Andaðu frá kviðnum með því að þrýsta kviðnum upp og niður eins og físibelg. Börn anda svona. Eftir að þú hefur lært þetta getur þú nýtt þér þessa aðferð hvar sem er, inni í lyftu, snyrtingunni og jafnvel í mannfjölda, þegar þú þarft á því að halda að róa þig niður og ná einbeitingu.
4. Beittu þig sjálfsaga. Stattu við samninga þína. Vertu stundvís. Vertu minnug og á staðnum þegar þú ert innan um fólk. Þegar við höldum okkur í “núinu” og erum ekki að elta kanínur þá komum við betur auga á tækifærin. Þeir sem við eigum samskipti við finna að við erum áhugasamar og gefa meira af sér til baka. Þetta hefur gífurlega mikil áhrif, bæði á persónuleg sambönd þín og einnig fagleg.
5. Gefðu og þiggðu. Gefðu það sem þú vilt fá til baka. Ef þú vilt meiri samvinnu og virðingu, gefðu þá virðingu og samvinnu. Ef þú vilt árangur, hjálpaðu þá öðrum að ná árangri. Ef þú vilt meiri gleði, vertu þá glaðlegri. Vertu einnig opin fyrir því að taka við. Þegar þú sendir út jákvæða orku, þá skapast enn meiri jákvæð orka og fleira til að gleðjast yfir.
grein fengin frá femin.is