Ég er ein af þessum óheppnu sem fá frunsur í andlitið.
Það byrjaði þegar ég var lítil. Ég var með einhver sár í andliti og lítil stelpa kom og kyssti mig, hún var öll út í frunsum. Sömu nótt vaknaði mamma upp við skaðræðis grátur í mér og þegar hún sá mig var ég með frunsur út um allt! Reyndar sluppu mikilvæg líffæri… You know what I mean! En ég lá á gjörgæslu í einhverja daga.
Enn í dag er ég að fá þetta ógeð í andlitið og stundum niður á háls. Þetta kemur aðallega ef ég er stressuð, sef lítið eða borða lítið, sem ég geri þessa dagana vegna vesens með magann minn. Og það fylgir þessu svo mikill pirringur að ég gæti tjúllast ;).
En allavega ætla ég að reyna að miðla minni reynslu í sambandi við þennan frekar pirrandi gest, með von um að geta hjálpað þeim sem fá þetta:
1. Ekki koma við frunsurnar nema til að bera á krem.
2. Alls ekki kreista þær, þetta eru náttúrulega ekki bólur og það er vökvi í þeim smitaður af Herpes Simplex þannig að hann gæti breiðst út. Einnig geta myndast ljót ör.
3. Notið græðandi krem eins og AD eða Cetavlex. Annars virkar Vectavir einnig vel en hann þurrkar upp húðina.
4. Þvoið ykkur vel um hendur ef þið komið eitthvað nálægt sýkta svæðinu.
5.Það eru til töflur við þessu líka en þær eru lyfseðilsskyldar og rándýrar.
Einnig vil ég benda á að frunsur eru mest smitandi fyrstu dagana. Þá eru þær eins og blöðrur. Bíðið með kossa þangað til þær eru horfnar. Ég er reyndar svo heppin að unnusti minn er eitthvað ónæmur fyrir þessu, en ekki er víst að allir séu það.
Ég vona bara að þetta hjálpi ykkur sem fá frunsur eitthvað, en allavega reynið að fara eftir einhverju af þessu. Believe me ég hef staðið í þessu í nítján ár.
Helga.