Það var mikið um að vera í Stakkaseli 4. Petra mamma var að baka smákökur, pabbi var úti að ná í jólarjúpuna og meira að segja Thelma litla systir var að taka til. Ég málaði smákökur meðan ég ímyndaði mér allar gjafirnar sem mig langaði í og allan matinn sem ég ætlaði mér að borða. Sem minnti mig á það, er ekki að koma matur?
„Mamma, er ekki kominn matur?” gargaði ég meðan ég gekk niður í eldhús. Mamma svaraði ekki. Hún stóð stjörf fyrir framan sjónvarpið og horfði á fréttirnar.
„….þurrkurinn hefur gert það að verkum að svotil allt vatn hefur gufað upp, uppskeran brást….” þuldi fréttamaðurinn. Með fréttinni voru myndir af börnum sem voru ekkert nema skinn og bein. Bumban á þeim var útstæð, augun stór og slepjuleg en jafnframt saklaus og báðust vægðar.
„Mamma, af hverju voru börnin svona skrítin?” spurði ég þegar fréttin var búin.
„Það er af því þau eru svo svöng og þyrst” sagði mamma þegar hún virtist loksins átta sig á því að það væri verið að tala við hana.
„Af hverju fara þau þá ekki út í búð og kaupa mat svo þau verði ekki svöng lengur?” spurði ég í sakleysi mínu.
„Það er af því að þau eiga engan pening til að kaupa mat, Hilmar minn,” sagði hún glottandi, „en nú skulum við fá okkur að borða.”

Allt kvöldið hugsaði ég um börnin í Afríku. Stóru bumbuna, slepjulegu augun, horuðu hendurnar. Mér fannst þetta svo skrítið. Alltaf þegar ég var svangur fór ég bara inn í eldhús og fékk með kex eða banana og ef ég var þyrstur fékk ég mér vatnsglas. Hjá þeim var ekkert eldhús og ekki einu sinni víst hvort það væri vatn í nágrenninu.

Þegar Skyrgámur kom að glugganum mínum þetta kvöld, beið hans skál með skyri eins og venjulega en undir skálinni var miði.

,,Kæri Skyrgámur. Viltu fara með skyrið til svöngu barnanna í Afríku?

Kveðja, Hilmar Aron”


Ef það hefur verið einhver keppni þá er þetta ekki sent í hana og líka þá er fresturinn til að senda inn runnin út svo þetta er bara svona til gamans…

Gleðileg Jól! Jólin eru nú bara tvisvar á ári..