Gjöfum og öðrum jólaglaðningi tengist óvættur sem illa hefur gengið að henda reiður á, nefnilega jólakötturinn. Í síðara bindi þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar frá árinun 1864 segir svo um jólaköttinn, en mjög fáar heimildir eru til um hann.
Þó gátu menn ekki notið jólagleðinnar með öllu áhyggjulausir því auk jólasveinanna var það trú að óvættur væri á ferð sem kallaður væri jólaköttur. Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu ,, fóru allir í jólaköttinn" svo hann tók (át ?) þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann. En jólarefur hét það sem hverjum heimilismanni var skammtað til jólanna (í mat) á aðfangadagskvöldið. Af þessu kepptust allir við, bæði börn og hjú, að vinna til þess af húsbændum sínum fyrir jólin að fá eitthvað nýtt fat svo þeir færu ekki í ólukkans jólaköttinn né að hann tæki jólarefinn þeirra, þegar börnum og hjúum tókst bæði að fá nýja flík, nógan jólaref og þar á ofan jólakerti og það sem mest var í varið, að þurfa ekki að fara í jólaköttinn, var ekki kyn þó kátt væri um jól til forna. (http://www.islandia.is/7Ejuljul/jol/kotturkepp.htm)