Skata, rétt eins og hákarlinn, er ekki úldin eins og margir halda, heldur kæst. Á þessu tvennu er regin munur. Rétt eins og grafinn lax úldnar ekki heldur tekur í sig bragð og annað sem verkunin gefur af sér. Það er deginum sannara að lyktin af skötu þegar hún er soðin er hreint ekki geðsleg en sá angan á ekkert skyllt við dásamlegt bragðið af henni. Þess vegna hafa menn soðið hana í bílskúrum en borið síðan góðgætið inn á borðin, þar sem því hafa verið gerð góð skil.
Ég vandist ekki við át á skötu sem barn, smakkaði hana fyrst sem unglingur. Var ekki allt of hrifinn fyrst en ákvað að gefa henni séns og hún vann á og sigraði. Ég er þó ekki kominn lengra en í rúmlega miðlungskæsta. Sú sterka er þó býsna góð, en ég tárast af öllu yfir miðlung og græt stífum tárum af þeirri sterku. Þetta ét ég með rúgbrauði og hömsum, vestfirðingur er ekki enn inn í dæminu hjá mér en hver veit?
Þið sem fúlsið við skötu án þess að smakka, ættu að láta það ógert. Smakkið, reynið aftur og dæmið svo.
Það hefur stundum hvarlað að mér, að ef pizza og hamborgarar væru gamalir íslenskir þjóðarréttir, en sviðin, hrútspungarnir og skatan innfluttir réttir, hvort þjóðin sæti ekki að sviða-, hrútspuna- og skötu-áti á “MODERN” Íslenskum veitngastað, sem sérhæfði sig í því besta, “sem að sjálfsögðu er innflutt”. Pizza og hamborgarar yrðu þá að sjálfsögðu fordæmd sem mesta óæti, svo ekki yrði talað um djúpsteiktar kartöflur, sem væru þá af sama meiði.