Haglélið dundi á rúðunni meðan Bryndís vafði teppinu þéttar að sér fyrir framan ofnin. Hún hafði áhyggjur, hvernig ætti fjölskyldan að halda þessi jól? Pabbi var með krabbamein og mamma hafði vart tekjur til að reka heimilið. Þótt hún væri bara 14 ára ákvað hún að sækja um vinnu. Hún stóð upp, og klæddi sig í þykka dúnúlpu áður en hún hélt út í storminn.
Leiðin lá niður að skrifstofu atvinnumiðlunar. Bryndís steig inn á skrifstofuna, blaut og þreytt. Vingjarnleg kona bauð henni aðstoð en um leið og hún sagðist vera 14 ára var lokað á alla atvinnumöguleikar hennar. Hún hélt aftur út í storminn, á leiðinni heim hrasaði hún og datt ofan í poll. Maður í jólasveinabúningi hjálpaði henni á fætur, hún sá að þetta var ekki ekta skegg og ætlaði að labba burt án þess að þakka fyrir sig. Sveinki lét það hins vegar ekki stoppa sig og ákvað að gefa Bryndísi lítið kerti sem hún ætti að nota til að láta óskir sínar rætast. Bryndís tók kertið með semingi en ákvað að geyma það, það gæti varla skaðað neinn.
Þegar hún kom heim stökk hún í kjöltu pabba síns sem lá í rúminu, hann hafði varla farið fram úr seinustu vikurnar og hún sá að ástand hans fór versnandi með hverjum deginum. Hann sagði henni að honum þætti svo vænt um hana og vildi að allt yrði eins og það var í gamla daga. Bryndís fór inn í herbergið sitt og kveikti á kertinu, það var notalegt að ylja sér við litla hitann sem kertið gaf frá sér. Hún lokaði augunum og óskaði sér, hún óskaði af öllu sínu hjarta að pabba hennar myndi batna og þau myndu eiga gleðileg jól saman.
Hún opnaði augun, hjarta hennar fylltist von, von um betra líf og réttlæti. Hún hljóp í herbergi pabba síns en hann lá þar enn þá, jafn máttlaus og fyrri daginn. Hún ákvað að sitja hjá honum um stund til að stytta honum stundir, honum þótti svo vænt um það. Bryndís fylgdist ekki með klukkunni og skyndilega fyllti sterkur brunaþefur vit hennar sem kom frá herberginu hennar. Kertið! Kertið hafði brennt úr sér og það var kviknað í húsinu!
Bryndís vissi ekki hvað á sig stóð veðrið, hún fyllti fötu af vatni og ætlaði að slökkva eldinn en hann hafði náð í gardínurnar sem stóðu nú í ljósum logum. Pabbi hennar var henni efst í huga núna, hún varð að koma honum út. Nágrannarnir voru komnir út á götu og hún kallaði á hjálp út um gluggann. Nokkrir menn brutust inn í húsið og héldu á pabba hennar út. Það var lítið meira sem Bryndís gat gert, húsið brann til kaldra kola.
Sjúkrabíll keyrði með þau upp á spítala þar sem þau höfðu bæði fengið væga reykeitrun. Mamma Bryndísar beið eftir þeim í móttökunni og saman voru þau flutt á stofu. Bryndísi brá í brún þegar hún sá að læknirinn sem átti að sjá um þau var sá sami og jólasveinninn sem hafði gefið henni kertið. Hann hlustaði á söguna og spurði svo hvers hún hafði óskað. Eftir löng svör dróg hann andan djúpt, loks sagðist hann vera krabbameinslæknir og væri að rannsaka nýja gerð af krabbameinslyfjum. Það vantaði sjúklinga til að prófa lyfið og pabbi Bryndísar væri góður kandídat. Fjölskyldan þakkaði lækninum innilega en hann sagði þeim að taka þessu rólega, ekki væri allt yfirstaðið og Bryndís og pabbi hennar væru enn með reykeitrun.
Fjölskyldan fékk að halda jólin á spítalanum með öðrum sem áttu við svipuð vandamál að stríða. Bryndísi fannst notalegt að geta haldið jólin í faðmi fjölskyldunnar og með hjálp frá spítalanum fengu þau góðan mat og gjafir. Á jóladag var þeim sagt að opnaður hafði verið styrktarreikningur þeirra til höfuðs og strax um áramótin hafði safnast ágóði sem myndi nægja þeim til að stofna til nýs heimilis.
Lyfjagjöfin hófst loks í byrjun janúar og pabbi hennar svaraði lyfjunum vel. Krabbameinið minnkaði ört og hann var orðinn brattur í lok febrúar. Læknirinn var yfir sig hrifinn en hann hafði ekki búist við svona skjótum viðbrögðum sjálfur. Pabba Bryndísar batnaði að lokum alveg og enn í dag rifjar Bryndís upp þessi jól, þetta var besta jólagjöf sem hún hafði nokkru sinni fengið, óskin hennar rættist.