Ég ólst upp við það að halda jólin ekki hátíðleg. Mamma og pabbi ákváðu það fyrir minn tíma að þar sem að þau trúðu ekki á Guð og Jesú Krist þá væri tilgangslaust og algjör peningaeyðsla að halda uppá hátíð efnishyggju og falskrar hamingju.
Þar sem ég ólst upp án hátíðlegra jóla þá fannst mér ég fyrst ekki vera að missa af neinu. Ég meina hvernig á maður að finna fyrir missi af einhverju sem maður hefur aldrei átt? Með tímanum komst ég samt að því að ég var að missa af einhverju. Með tímanum þá sá ég hvað aðrir glöddust yfir jólunum.
Fyrir flestum eru jólin nefnilega svo mikið meira en trúarleg hátíð. Fólk er bara að njóta tímans með fjölskyldunni. Borðandi góðan mat, gefandi hvert öðru gjafir, skreytandi húsin og lýsandi upp skammdegið með alls konar jólaljósum. Þess vegna skildi ég ekki af hverju foreldrar mínir högguðust ekki.
Þegar ég var 17 ára gömul þá gat ég ekki beðið eftir því að verða 18 ára. Ég hugsaði að þetta væri síðasta árið sem ég fengi ekki að halda jólin hátíðleg á heimili mínu. Því árið eftir ætlaði ég sko að halda þau. Mér er sama hvað foreldar mínir myndu segja. Mig langaði að gleðjast yfir því að hitta vini mína og eiga með þeim góðar stundir á aðfangadag og jóladag. Borða með þeim góðan mat og gefa þeim gjafir til að sýna þeim hvað mér þætti vænt um þau. Mér þótti samt leiðinlegt að ég átti aldrei eftir að njóta jólanna með foreldrum mínum. Ég meina ég hef auðvitað átt góðar stundir með þeim og borðað með þeim góðan mat, en að gera það á jólunum hélt ég að yrði öðruvísi, sérstakara.
Eða hvað vissi ég svo sem? Ég hafði aldrei haldið upp á jólin. Ég hlakkaði bara svo til, held ég. Árið eftir átti ég eftir að geta haldið uppá hátíð sem ég hafði beðið eftir í næstum því 18 ár.
Þið veltið því kannski fyrir ykkur af hverju ég hélt ekki uppá þau áður en ég varð 18? Fyrst ég ætlaði ekki að gera það með foreldrum mínum hvort eð er. Svarið er einfalt. Ég mátti það ekki, þau bönnuðu mér að halda uppá þau, ég átti sko að fylgja þeirra reglum þar til ég yrði 18.
Stundin rann svo loksins upp! Árið sem ég varð 18 ára flutti ég út. Ég átti ekki mikla peninga þannig að ég flutti inn til besta vinar míns. Ég átti afmæli í maí og ég flutti út sama dag. Það leið síðan að jólum. Fyrstu jólin mín. Ég vaknaði á aðfangadag, glaðari en ég hafði verið í langan tíma. Ég eyddi jólunum auðvitað hjá vini mínum og fjölskyldu hans. Það var æðislegt, við borðuðum rjúpur forrétt og fengum besta ís sem ég hef smakkað í eftirrétt. Eftir það tókum við upp pakkana og þegar leið á miðnætti þá fóru þau öll í miðnætturmessu. Ég varð samt eftir það sem að ég ólst nú ekki upp sem kristin manneskja og er því ótrúuð. Ég hélt uppá jólin þetta ár sem hátíð ljóss og friðar, en ekki sem fögnuð við afmæli Jesú.
Daginn eftir Þrettándan fór ég síðan og heimsótti foreldra mína. Þau vissu auðvitað af því að ég hafði haldið uppá jólin en ég fann ekki fyrir því að þau væru vonsvikin. Þau gáfu mér meira að segja gjöf, jólagjöf! En við það varð ég eiginlega bara reið. Mér fannst þessi gjöf koma 18 árum of seint.
Þá byrjuðu þau að gráta, bæði tvö. Ég skildi ekki hvað var að gerast. Ég hafði aldrei séð foreldra mína gráta áður. Þá sögðu þau mér að þau hefðu svolítið mikilvægt sem þau þurftu að segja mér.
Þegar ég fæddist þá var eitthvað vesen á mér. Ég kom nokkuð fyrir ásettan tíma þannig að það þurfti að taka mig með keisaraskurði. Þau gátu ekki útskýrt nákvæmlega hvað var að en það þurfti að gera einhverja aðgerð á mér. Aðgerðin heppnaðist ágætlega að sögn læknanna en ég þjáðist víst að einhverjum óalgengum sjúkdóm sem hafði dregið marga til dauða.
Við vorum ekki mjög rík fjölskylda þannig að foreldrar mínir ákváðu á þeim tíma að þau myndu gera hvað sem er til að spara sem mestan pening til að geta komist að því hvað væri að mér. Til að geta gert allt í þeirra valdi til að hjálpa mér.
Til að hjálpa mér? Ég fann ekki fyrir hræðslu þegar ég heyrði þetta. Ég varð brjáluð. Hvernig gátu þau gert mér þetta? Haldið þessu leyndu fyrir mér í 18 ár! Af hverju höfðu þau mig óhamingjusama í 18 ár? Af hverju gátu þau ekki sagt mér rétta ástæðu fyrir því að þau ákváðu að halda ekki uppá jólin? Til þess að spara peningana til þess að bjarga lífi mínu.
Ég sem hafði nánast hatað þau í allan þennan tíma.
Ég strunsaði heim. Kastaði mér upp í rúm og grét. Og grét. Á meðan ég grét þá hugsaði ég samt til baka yfir þessa stuttu ævi mína hingað til. Yfir þessi rétt rúmu 18 ár. Síðan hugsaði ég hvað ég hafði skemmt mér vel yfir þessu einu jól og hversu miklu foreldrar mínir höfðu því fórnað fyrir mig. Til þess að reyna að bæta lífið mitt. Hvernig gat ég orðið þeim svona reið? Ég var eina barnið þeirra þannig að þau höfðu ekki mikla reynslu af uppeldi. Ef þau hefðu bara vitað að hreinskilnin dugir oft langbest.
Þarna þar sem ég lá uppí rúmi ákvað ég að fyrirgefa þeim. Ég fór til þeirra og faðmaði þau svo lengi að faðmlagið virtist engan endi ætla að taka. Ég ákvað að flytja aftur heim og upp frá þessu hélt ég jólin með þeim á hverju ári og hvert ár virtist toppa árið áður. Það var yndislegt að halda jólin loksins með fjölskyldunni minni.
Þegar ég fór líka á fund læknanna þá kom í ljós að þessi sjúkdómur sem hafði hrjáð mig við fæðingu virtist liggja í dvala og enn þann dag í dag halda læknarnir því fram að það sé betra að halda því þannig.
Núna get ég ekki beðið eftir næstu jólum. Ég er orðin 25 ára gömul og á eina litla stelpu sem virðist elska jólin meira en mamma sín. Jólin eru sannarlega sá tími ársins sem fjölskyldan okkar ljómar sem mest.