Eru jólin tilboð?
Kristín Gestsdóttir
Nú hef ég verið að velta mér upp úr tilboðum… og ég sem ætlaði ekki
að gera neitt fyrir jólin. Sko þannig er að ég sá þetta svakalega
tilboð á borðstofusettum og skyndilega fannst mér að jólin kæmu ekki
nema að ég eignaðist þetta sett. Aðeins kr. 199.999.- með sex stólum
og ég má greiða á raðgreiðaslum og verð búin að greiða það næsta
desember. Mín skellti sér á það. Kom ekki með póstinum annað tilboð um
pottasett, aðeins 4.995.- kr. Þetta verð ég að eignast og jólin þau
koma ekki nema að ég eignist þetta það er nú alveg á hreinu. Mín
keypti það og á von á glansandi pottasetti með póstinum hvað úr
hverju. Það er alveg ótrúlegt hvað mig vantar svona pottasett, ég hef
ekki eldað síðan ég pantaði það vegna þess að gömlu ljótu pottarnir
eru bara svo GAMLIR OG LJÓTIR að ég get ekki eldað.
Svo kemur inn til mín sjónvarpshandbókin og þar er þessi ótrúlega fíni
sjónvarps og hljómtækjaskápur sem er svo nauðsynlegt fyrir okkur að
eignast aðeins 25.500.- þetta er ótrúlegt og mín er búin að setja hann
á raðgreiðslur og verð bara búin að borga hann í maí. Ótrúleg þessi
kort. Miklu betri en jólakortin. Nú get ég andað léttar, komin með
þennan fína skáp (skyldi hann passa fyrir sjónvarpið). Þar sem
skápurinn er svona fínn get ég ekki notað gamla videóið fyrir hann. Ég
verð að fá mér nýtt þannig að ég er búin að panta myndbandstæki fyrir
kr. 17.900.- mjög gott verð. Í sömu búðinn rakst ég á hárklippisett
1.240.- brauðrist á 1.990.- kaffikönnu á 1.890.- gufustraujárn á
1.990.- og svo örbylgjuofn á 10.990.- ég fékk magnafslátt þannig að
þetta kostaði bara 17.919.- þetta verður bara allt annað líf þegar ég
verð komin með hárklippisettið.
Allir þurfa svo auðvitað ný föt á heimilinu það er ekki hægt að vera í
gömlu fötunum og það kostaði bara 80.000.- í þessum góða lista sem kom
heim einhverstaðar frá. Nú er ég búin að skuldsetja fjölskylduna fyrir
aðeins 266.913,- þá á ég eftir að versla jólgjafir og allt í matinn
það er bara svona ca 100.000.- enda er ég að SPARA þessi jólin.
Jú jólaseríurnar góðu ég neyðist til að kaupa nýjar því peran finnst
ekki og ein slær alltaf út. Ætli þetta fari nokkuð hærra en 400.000.-
við hljótum að komast af með það. 400.000.- deilt með 12 mán. Er
33.333.- kr á mánuði allt næsta ár ofan á hina reikningana jú, jú það
sleppur. (en ég gleymdi vöxtunum, skítt með það það eru bara nokkrar
krónur) Eða sleppur það…
Sem betur fer töluðu til mín æðri máttarvöld og sögðu: “Hvað er í
gangi?….. Stopp góða mín…. Við verðum að vera raunsæ…. Ekki
satt… venjulegt heimili verslar ekki fyrir 500.000.- fyrir ein jól.
Mér fannst þessi æðri máttarvöld óþægileg og í kaupæðiskastinu með
kvíðahjartslátt gargaði ég ”EN TILBOÐIN HVAÐ Á AÐ GERA VIÐ ÞAU? ÞAU
ERU ALLSTAÐAR.“ ”Við látum auðvitað tilboðin fram hjá okkur fara og
höldum jólin með fjölskyldunni en ekki tilboðunum. Jólafötin eru miklu
þægilegri ef búið er að nota þau áður en maður fer í þau en ekki
brakandi skór og stífaðir kragar. Eiga jólin ekki að vera
fjölskyldustund, við njótum jólanna betur ef við eigum ekki yfir höfði
okkar hrúgur af reikningum og ógeðfelldum afborgunum."
Já æðri máttarvöld, hvar voruð þið síðustu jól?????