Þegar Jónas bjargaði jólunum Jónas stóð upp frá götunni. Hann lagaði til lendaskýluna, og strauk í burtu nokkur snjókorn sem höfðu fallið á hann. Hann leit í kringum sig, og að eina sem hann sá var ógeðslega skítuga gatan sem hann bjó við. Bjó á, réttara sagt. Og andskotinn, það var byrjað að snjóa. Snjór þýddi aðeins eitt; kuldi. Andskotans kuldi.

Jónas beygði sig niður og klappaði kisunni sinni, Kisu. Greyið Kisa, Jónas hafði ekki efni á að kaupa kattasand fyrir hana. Hún bjó bara með honum í pappakassanum. Kassinn var orðinn rakur núna, vegna snjósinns sem féll þyngra og þyngra. Ojæja, ekki mikið hægt að gera í því. Finna vinnu? Hver myndi ráða mann sem gekk um í skítugri lendaskýlu og engu öðru? Hann mundi heldur ekki hvenær hann fékk síðast klippingu. Hann var orðinn helvíti þunglyndur….

“Ó ég vildi óska þess að ég ætti ”Jonas“ tölvustól eins og ég sá í Rúmfatalagernum…” sagði Jónas við Kisu. “En hann er auðvitað allt of dýr..”
Stóllinn hékk yfir draumum hans eins og olíubrák.
“Ó hversu mjúkur hann hlýtur að vera!”

Jónas hélt áfram að labba um. Hann leit á gluggana á húsunum í kringum sig. Andskotans jólaseríur…. jól… tími hamingju og gleði og friðar: Hjá öllum nema Jónasi. Jól þýddu bara að Jónas þyrfti að horfa upp á aðra í allri þeirra yfirþyrmandi hamingju og gleði.
Andskotans jólaseríur.

Jónas andvarpaði. Bara ef hann ætti stólinn, og kattamat fyrir Kisu… bara ef…
Hugur hans staldraði við stólinn áfram, og Jónas lét sig dreyma.

“Mjá!” sagði Kisa.
“HVAÐ?!” öskraði Jónas, reiður yfir að hafa verið kippt úr dagdraumum sínum og hent út í blákaldan veruleikann.
“Mjá! Mjáá!” - Kisu virtist mikið í mun að Jónas skildi hana.
“Hvað meinarðru, Kisa? Hvað sástu?” Jónas trúði ekki sínum eigin eyrum.
“Mjá!!”
“Jólaseríu á götunni? Sem gengur fyrir batteríum?!?”
Jónas vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við!

Jónas sneri sér við, og leit á það sem Kisa virtist vera að benda honum á.
Jú, þetta var svo sannarlega jólasería! Gæti Jónas virkilega haldið jól?
Hann gekk hægt að seríunni, hræddur við að henni yrði kippt frá honum jafn hratt og hún birtist honum. Eins og lífinu hafði verið kippt undan honum, þegar allt gekk sem best.

Hann tók upp seríuna og kveikti á henni. Hún var í öllum regnbogans litum: gul, rauð, græn, blá… þetta var það fallegasta sem Jónas hafði nokkurntíman augum litið. En ó! Ein peran var biluð. Hann sneri henni, í von um að það myndi kveikna á henni.

Samstundis birtist grænt ský, rétt fyrir ofan götuna.
“HVAÐ?!” öskraði Jónas, miður sín. Auðvitað var þessi sería of góð til að vera sönn.
Grænt ský, sem varð þykkara og þykkara, þangað til það líktist helst slími. Það tók loksins á sig mynd, varð svolítið sem Jónas gat ekki mögulega trúað.

“Andi! Þ… þa.. það er andi!!” öskraði Jónas, titrandi af hræðslu.
“Ekki vera hræddur, Jónas!” sagði andinn. “Ég geri þér ekki mein! Þú snerir ljósaperunni! Þú færð þá þrjár óskir. Hvað má bjóða þér?”

Jónas hikaði. Kleip sig í kinnina, ekkert gerðist. Kleip sig í handarbakið, og ákvað þá að trúa því sem hann sá.
“Þrjár óskir….” sagði Jónas, meira við sjálfan sig heldur en nokkurn annan.
“Ég óska þess að fá kattasand fyrir Kisu!”
Og sjá! Kattasandur birtist.
Andinn brosti, Jónas starði.

“Önnur ósk, Herra?”, spurði andinn.
“Ég óska þess að fá ”Jonas“ stól úr Rúmfatalagernum!
Og sjá! Stóllinn birtist.

Jónas hugsaði sér vel og vandlega um, og annar eins einbeitningarsvipur hafði ekki sést í ár og aldir.

Andinn brosti, og slímdropi lak úr eyranu á honum.

”Þriðja ósk mín, Andi. Ég óska þess að þú hverfir. Þú ert ógeðslegt slímfrík, og eyðileggur fagurfræðilegt gildi götunnar. Ég vil aldrei sjá þig aftur, og gerðu það, fáðu þér tissjú til að þurrka eitthvað af þessu ógeðslega slími. Þú lætur mig vilja gubba," sagði Jónas.
Andinn varð undrandi og sár, en gat ekki annað en gert húsbónda sínum til geðs.
Og Andinn hvarf.


Jónas og Kisa lifðu hamingjusöm til æviloka, með fallegu jólaseríunni sinni. Aldrei myndi neinn Andi birtast úr henni aftur, þar sem hann var horfinn að eilífu. Þess vegna skalt þú, lesandi góður, ekki óttast ljóta slím-anda, þeir eru ekki til lengur. Jólin eru nú endanlega slímlaus.

Gleðileg jól!


~~~~~~~~~~~
Þessi saga á að taka þátt í Jólasagnakeppninni.