“Jólin, jólin, jólin koma brátt..” sönglaði Dísa.
Hún var að verða búin að skreyta jólatréð þetta árið, ekki að hún hafi haft mikið að skreyta. Þetta var frekar fátæklegt jólatré, svona miðað við flesta allavega. Það var jafnstórt og hún og ekki var hún stór, 130 cm.
Dísa var 8 ára gömul stelpuhnáta sem bjó með móður sinni í leiguíbúð í Breiðholti. Þær voru bara tvær, en mamma hennar gat ekki unnið vegna örorku og þessvegna höfðu þær aldrei efni á miklu. En Dísu var sama þó þetta væri bara lítið jólatré með fátæklegu jólaskrauti sem samanstóð af nokkrum eldgömlum jólakúlum, öllum rauðum, stöku bjöllu hér og þar og beyglaðri stjörnu á toppnum. Þetta var þeirra jólatré, sem þær áttu saman og í hennar augum var það langflottasta tré í heimi.
—–
Ásta stóð við ofskreytt, risastórt jólatréð og horfði á það með hörmungarsvip. Mamma hennar tók eftir að hún hafði hætt að skreyta tréð, leit á hana og skalf í huganum. Hún var að fara að grenja eitthvað.
“MAMMA! ÞESSI GREIN ER SKÖKK! NÚNA GETUM VIÐ EKKI HALDIÐ JÓ-HÓ-HÓÓÓÓÓÓL!” öskraði hún, hljóp inní herbergið sitt og skellti.
Mamma hennar dæsti, gekk að trénu, rétt snerti greinina og lagaði hana.
“Hvernig ætli hún hafi orðið svona frek….” muldraði hún útí loftið.
—–
Dísa hjálpaði mömmu sinni að bera fram lambið. Þetta var ekki mikið, rétt nóg handa þeim tveimur. En þetta var óendanlega mikið í augum Dísu, mamma hennar gaf henni nánast aldrei kjöt. Það var of dýrt.
Á borðinu voru tvö glös, tvær dósir af jólaöli í dós, eins líters kók, lambið, nokkrar soðnar kartöflur, hituð piparsósa úr Bónus, rauðkál og grænar baunir.
“Vá, þetta er veisla! Takk mamma!” sagði Dísa og faðmaði mömmu sína áður en þær settust og nutu matarins.
—–
“MAMMA! Gefðu mér jólabland!” kallaði Ásta.
Mamma hennar dæsti og hellt í glasið fyrir Ástu. Ekkert virtist vera nóg fyrir hana, fyrst hafði steikin verið aðeins of brún, síðan höfðu kartöflurnar ekki verið nógu brúnaðar, grænu baunirnar voru skrítnar á bragðið, salatið var ógeðslegt, rauðkálið var of fjólublátt og svo mætti lengi telja. Það var eitthvað að öllu.
Skyndilega frussaði Ásta jólaölinu yfir borðið.
“MAMMA! ÞAÐ VAR BAUN Í GLASINU! NÚNA ER MÁLTÍÐN ÓÓÓÓNÝT!” öskraði hún, ýtti stólnum frá borðinu og hljóp inní herbergi og læsti á eftir sér.
Mamma hennar stóð þreytulega á fætur og leyfði restinni af fjölskyldunni að njóta matarins á meðan hún eyddi næstu 10 mínútunum í að hugga Ástu. Að lokum var hún orðin glöð og hljóp aftur með bros á vör inn í eldhús.
Í herberginu sat mamma hennar enn á rúminu.
“Gott að hún hefur þó allt á jólunum…” sagði hún létt við sjálfa sig, stóð upp og gekk inní eldhús.
—–
“Vá, takk mamma! Hún er frábær!” sagði Dísa og faðmaði að sér litla tuskuljónið sem hún hafði fengið. Dísa elskaði tuskudýr, hún varð alltaf jafnánægð þegar hún lék sér að asnanum sínum og bangsanum, núna gat hún ekki beðið eftir að segja þeim að þau höfðu fengið leikfélaga.
“Ekkert mál elskan,” sagði mamma hennar og kyssti hana á kinnina. Dísa horfði aðeins á hana og brosti síðan.
“Bíddu aðeins mamma!” sagði hún og hljóp í átt að herberginu sínu. Hún kom fljótlega aftur með hendur fyrir aftan bak.
“Gleðileg jól mamma,” sagði hún hljómþýtt við mömmu sína áður en hún rétti hendurnar fram. Þar hélt hún á venjulegu A4-blaði. Mamma hennar tók við því, sneri því við og sá litla mynd sem Dísa hafði teiknað.
“Þetta ert þú að ýta mér í rólunni útá leikvelli! Ég vandaði mig ótrúlega mikið!” sagði Dísa og brosti.
“Takk elskan, þetta er frábær jólagjöf,” sagði mamma hennar með tár í auganum, síðan lagði hún myndina varlega frá sér og faðmaði Dísu að sér.
—–
Ásta sat spennt með pakka í fanginu. Þetta var sá fyrsti og hún gat varla beðið eftir að sjá hvað var í honum. Hún reif pappírinn gráðug utan af, tók upp Barbie-dúkkuna og gapti.
“Líkar þér þetta elskan?” sagði mamma hennar vongóð, þó hún væri nokkuð viss um að svo væri ekki.
“Ma-mamma… Þú… Ég… ÞETTA ER EKKI FLOTT LENGUR! ÉG VILDI FÁ BRA-HA-HA-HAAAAATZ!” öskraði hún, þrumaði dúkkunni í gólfið og hljóp í átt að herberginu sínu.
“Hvað með hinar gja…” byrjaði mamma hennar að kalla á eftir henni en þagði um leið og hún skellti hurðinni.
Hún labbaði að dúkkunni, tók hana upp, horfði á hana í smástund og brast svo í grát. Ekki í fyrsta sinn síðan Ásta fæddist. Maður hennar gekk að henni og tók létt utan um hana.
“Afhverju get ég ekki verið góð móðir, sama hvað ég reyni?” spurði hún hann hálfgrátandi.
“Æ, svona eru bara krakkar Dísa mín, þeir geta aldrei verið þakklátir,” sagði hann og vaggaði henni aðeins í faðmi sér.
—–
“Þetta voru æðisleg jól mamma. Þú ert frábær!” sagði Dísa um leið og mamma hennar slökkti ljósið inni hjá henni.
Mamma hennar brosti lítið eitt áður en hún gekk aftur að rúminu, tók utan um Dísu og sagði:
“Þú ert líka frábær Dísa mín, þú ert frábær.”
—–
Þessi saga er fyrir jólasögusamkeppnina 2005. Sagan er tímalaus, hún getur gerst nánast hvenær sem er. Munið svo um hvað jólin snúast :)