Ljósin, jólaljósin, lýsa upp skammdegið. Ég geng í gegnum götuna, allflest húsin vel upplýst og falleg, dásamleg sjón. Hvað er betra en að taka sér frí eitt kvöld frá jólastússi, fara út að ganga einn með sjálfum sér, skoða hvernig ljósin sindra í myrkrinu og vera með kveikt á rólegum og fallegum jólalögum í iPodinum? Og svo, þegar maður kemur aftur heim, að setjast fyrir framan gluggann, með kveikt á útvarpinu á jólarásinni, snæða smákökur og drekka ilmandi heitt súkkulaði? Fátt held ég…
Auðveldara er að finna hinn sanna anda jólanna streyma um æðar sér þegar maður er í rólegheitum, heldur en að vera í Kringlunni langt fram á kvöld að hlaupa búð úr búð í jólastressi, leitandi að jólagjöfum, skrauti og ýmsu fleira, bara tímasóun.
Eitt sinn var ég þessi týpa sem slakaði ekki á í eina mínútu í desember, var hlaupandi, stressaður, vann úr mér allt vit til að eiga fyrir öllum þessum gjöfum. En ekki lengur, ekki eftir það sem eitt sinn gerðist einn fagran dag í desember, að rifja þá sögu upp iljar mér um hjartarætur, því ég minnist þess hvað ég varð mun meira jólabarn eftir það.
Einn daginn, það hefur verið um 20. desember, kannski fyrr, var ég kominn í jólafrí. Ég slugsaðist af stað til að kaupa þessar gjafir sem ég átti eftir, bölvaði bíldruslunni í sand og ösku fyrir að komast ekki af stað fyrr en eftir nokkrar tilraunir, bölvaði helvítis snjónum sem heftir för mína, krakkafíflunum sem köstuðu í bílinn minn, jafnvel jólatónlistinni, þessu gargi sem hljómaði úr útvarpinu og ég var að verða vitlaus á, eftir mánaðar hlustun á sömu lögin aftur og aftur.
Þegar ég var loksins kominn út á Hringbraut, vá hvað ég varð feginn! Loksins gat ég keyrt áfram án þess að eiga það á hættu að fá snjóbolta í bílinn, og gat spyrnt almennilega í, því enginn var snjórinn. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér…
Vá, þessi takki á útvarpinu sem slekkur á því, þvílíkt æði! Jólaauglýsingar og -lög trufla, fíflalegt hvað allar útvarpsstöðvarnar geta ekki hætt að spila það! Á 110 km hraða er erfitt að stöðva bíl snögglega, sérstaklega í hálku eins og var þennan dag.
Ég vissi ekki af mér fyrr en á sjálfan aðfangadag, vaknaði á Landspítalanum við Hringbraut, og vá, það var skrýtin tilfinning. Ég fékk að vita tildrög málsins, ég lenti í hörðum árekstri, sem meðal annars kom farþega hins bílsins í lífshættu. Það eru ekki beint fréttirnar sem maður vill heyra svona þegar jólin eru að koma, sannleikurinn er sár.
Ég eyddi jólunum á spítalanum, því þó að ég hafði náð meðvitund var ég ennþá ekki fær um að fara heim, því ég var í stöðugri hættu, áhrif slyssins höfðu lítið dvínað. Þetta voru leiðinlegustu jól sem ég hef upplifað, og allt stressinu mínu að kenna.
Ég trúi því að verndarengillinn minn hafi látið mig klessa á hinn bílinn, að hann hafi látið mig missa af jólunum, að hann hafi bjargað mér. Farþegi hins bílsins, sem var í lífshættu, dó daginn fyrir gamlársdag, hún hafði aldrei náð meðvitund. Enn þann dag í dag sendi ég fjölskyldu hennar gjafir og jólakort á jólunum, og mun gera áfram, því sektarkennd mín er mikil. Ég læt einnig gott af mér leiða núna, gef t.d. nokkrar gjafir undir jólatréð í Kringlunni á hverju ári, styrki Hjálparstarf kirkjunnar, og margt annað sem er gott og göfugt. Ég geri þetta vegna þess að ég er ánægður með lífið, ánægður að hafa lifað af, fagna hverjum jólum eins og þau væru mín síðustu, og gleymi ekki jólaboðskapnum. Ég gef ekki eins margar gjafir og áður, eflaust eru einhverjir fúlir þess vegna. En þá segi ég á móti, hvað hafið þið gert til að verðskulda þetta, og hvað munar ykkur um þessa einu gjöf? Jólin snúast ekki um gjafir, heldur frið og kærleik, ást og umhyggju. Jólin eru að verða heilsufarsvandamál, fólk þarf að sækja sálfræðinga vegna jólastresss. Ekki ég, ég klára þetta allt fyrir desember, og nota svo jólamánuðinn sjálfan í afslöppun og náungakærleik, hvað með þig?
Þessi afdrifaríku jól, sem mér fundust vera ömurlegustu jól í heimi, hafa breytt um álit í huga mér, þau lifa í minningunni sem bestu jólin mín, þó að ég hafi hlotið varanleg meiðsl, það að ég er nú betri manneskja í kringum jólin en ég var tekur yfir það.
Gleðileg jól!
——
Ég kýs að senda þessa sögu inn í jólasagnasamkeppnina, hún er kannski ekki sú besta, en verið sanngjörn, það eru ekki allir topp rithöfundar.