Jamm, ekkert sérstaklega merkilegt í augum flestra, en þetta er mjög merkilegt í mínum augum.
Litli kertastjakinn minn.
Jólaskapið byrjaði mjög seint hjá mér. Kannski var það útaf því að ég bar út Fréttablaðið og Ikea-jólaauglýsingarnar byrjuðu á baksíðunni í byrjun Nóvember. Kannski útaf því að þegar ég fór í Smáralindina í Nóvember var jólageðveikin byrjuð. Kannski útaf því að kaupa-kaupa-kaupa-brjálæðið blasir við mér í hvert skipti sem ég opna tímarit, dagblað, kveiki á sjónvarpi eða útvarpi. Kannski út af því að ég þarf að sæta ásökunum um að vera hræsnari út af því að ég er trúleysingi fyrir að vilja halda upp á jólin sem að eru alveg jafn mikilvæg hátíð fyrir mér og kristnu fólki. Eða kannski útaf því að fólkið sem býr nokkrum húsum frá mér var komið með skreytt jólatré fyrir utan hjá sér í ágúst og ég þurfti að sjá það í hvert skipti sem ég labbaði til bestu vinkonu minnar.
Ég veit ekki hvort það var út af þessu eða jafnvel vandamálinu hjá mér í lungunum sem að er ekki enn búið að finna út hvað er og hefur versnað því nær sem dregur að jólunum, en í hvert skipti sem að það var minnst á jól við mig eða ég sá einhvað sem minnti mig á þau þá fann ég að einhvað þyngdist í sífellu í brjósti mér.
Byrði. Afhverju voru jólin skyndilega orðin svona mikil byrði? Ekki var það út af því að núna fæ ég ekki lengur gjafir frá ættingjum því að ég er fermd. Gjafir hafa aldrei haft mikla merkingu fyrir mig á jólunum. Síðan Desember byrjaði var einhvað sífellt búið að þjaka mig og það þyngdist bara í sífellu og var næstum orðið að þunglyndi.
En það var ekki fyrr en í kvöld, þegar ég fór upp til að bursta tennurnar að ég fann það.
Ég rakst á kassa með jólaskrauti sem að átti að hengja á jólatréð og í stofuna. Ég fann litla hluti, hluti sem höfðu verið gerðir af viðkvæmum barnshöndum, hluti sem myndu aldrei hanga upp á vegg á gallerýum og kaupendur myndu eyða milljónum í til að geta státað sig af, heldur hluti sem að uppskáru breið bros stoltra foreldra og setningar eins og “rosalega er þetta fallegt” og “gerðir þú þetta alveg sjálf/ur.”
Þetta fékk mig til að brosa, en aðeins í smá tíma. Aftur helltist yfir mig þessi óútskýranlegi þungi, brosið var gleymt og grafið og vonleysið komið aftur. Það var þá sem ég rakst á hann.
Grafinn neðst í kassann. Kertastjakinn minn. Jólatré með gullinni stjörnu efst á því, og fyrir neðan jólasveinabangsinn haldandi á gjöf og sælgætisstaf.
Á þeirri sömu stundu heyrði ég foreldra mína kalla að núna yrði ég að fara að sofa því það væri próf á morgun. Ég stakk kertastjakanum, pakka af eldspítum og hvítu kerti í vasann og dreif mig niður til að fara að sofa.
En ég gat ekki sofnað. Ég skrúfaði kertið fast í kertastjakann og kveikti á því. Það var þá sem einhvað byrjaði loksins og hrærast í hálffrosnu hjarta mínu.
Ég sá litlu stutthærðu stelpuna sem að dró kertastjakann himinlifandi upp úr skónum sínum og þusti svo fram í eldhús til að segja mömmu sinni og pabba frá hvað hún hafði fengið fína gjöf frá Stekkjastauri. Ég sá hana einnig liggjandi í rúminu sínu um kvöldið skrifandi bréf til Giljagaurs þar sem hún bað hann um að þakka Stekkjastauri fyrir þessa frábæru gjöf. Bréfið skildi hún eftir í gluggakistunni ásamt froðu af mjólk handa Giljagaur.
Ég sá þessa sömu stelpu inn í herberginu sínu, augljóslega nokkrum árum eldri með húð jafn hvíta og snjóinn fyrir utan en prídda fjórum klórum sem náðu frá hægra eyranu niður á höku.
Ég fylgdist með henni vanda sig við að lita jólasvein og jólatré til að hengja á hurðina sína. Þetta gerði hún við kertaljós frá litla kertastjakanum sínum.
Ég sá hana enn á ný, enn búin að eldast. Klórin voru augljóslega gróin og örin falin undir þykku lagi af frekknum. Augun voru ekki lengur barnslega blá heldur var annað þeirra grágrænt og hitt blágrænt. Augun eru líka full af áhyggjum. Um hvort það verði gert grín af henni eftir jólafríið og hún lögð í einelti eða hvort það verði búið að gleyma henni og hún látin í friði. Hárið var orðið þykkara og dekkra og meira að segja barnslegu hendurnar höfðu fengið að víkja fyrir stórum og klaufalegum höndum sem minna talsvert á tennisspaða.
Hún slökkti á litla kertinu í kertastjakanum og hljóp til mömmu sinnar sem sagði henni að klæða sig vel því það væri kalt úti. Saman fóru þær til bestu vinkonu litlu stelpunnar og svo til frænku hennar að föndra jólaskraut. Ég fylgdist með henni kyssandi frænku sína bless á kinnina, ekki vitandi að því að eftir nokkra mánuði myndi hún kveðja hana með því að gera krossmark yfir kistunni hennar.
Enn og aftur sá ég stelpuna, sitjandi í herberginu sínu, enn og aftur með kveikt á kerti í stjakanum góða, að vanda sig við að setja jólaseríurnar á rúmið sitt.
Það sem var breytt núna var að brosið var horfið af vörum hennar. Það voru nokkrar ástæður fyrir því. Sú fyrsta var að hún var nýflutt og vissi að fyrr eða síðar þyrfti hún að byrja í nýjum skóla, kynnast nýju fólki og treysta nýjum krökkum. Önnur var sú að núna átti hún víst herbergið sem að látin frænka hennar hafði átt aðeins nokkrum mánuðum áður. Þriðja var sú að hún þorði ekki upp því hún vildi ekki hryggja ömmu sína og afa, því hún var svo lík dætrum þeirra tveimur sem að féllu báðar fyrir krabbameini, en önnur þeirra dó einmitt um jólaleitið. Fjórða ástæðan var einfaldlega að hún hafði sætt mikillar stríðni út af stórum framtönnum og var sjálf farin að standa í trú um að þær minntu á nagdýr.
Ég fylgdist með henni sitjandi við jólatréð, takandi upp jólagjafirnar sínar. Svuntu sem að látin frænka hennar hafði saumað svo mörgum árum áður. Hún brosti og kyssti ömmu sína og afa fyrir gjöfina en ég vissi að í raun að hún hélt aftur af tárunum, því hún kvaldist fyrir hverja þá stund sem að hún var minnt á þá staðreynd að þær einu í fjölskyldunni hennar voru dánar.
Ég var orðlaus í nokkrar sekúndur eftir að þessari sýningu lauk. Ég vissi vel hver þessi stelpa var sem ég hafði fylgst með. Hún var ég.
Þá losnaði það, hvað sem það var sem hafði haldið aftur af jólagleðinni hjá mér. Og ég skyldi afhverju. Jólagleðin hafði líka minnt mig á allt það vonda sem hafði gerst í kringum jólin. Kertastjakinn gerði það líka. Minnti mig á hvern einasta kvalarfulla hlut sem hafði gerst um jólaleitið. En kertastjakinn minnti mig einnig á littlu áhyggjulausu stelpuna sem ég var einu sinni. Stelpuna sem að hlakkaði svo til að fá frænku sína heim frá Svíþjóð en hafði enga hugmynd um hvað geislameðferð merkti.
Ég fann hversu djúpt ég þráði að vera þessi stelpa aftur. Árin sem ég hafði verið látin taka ábyrgð eins og fullorðin voru bara full af vandræðum.
En ég gat ekki snúið til baka. Ég sat bara og starði á kertið. Fann svo innilega fyrir einsemdinni sem kvaldi mig og reif í sundur. En stundum átti ég það til að njóta hennar og nærast á henni.
Ég er ekki manneskja sem að mikið af fólki líkar við. Ég er dæmd til að eyða stórum parti af ævi minni ein út af þessari fötlun. En á þessasri stundu veitti þessi kertastjaki og allar minningarnar sem flutu úr honum huggun við allri minni einveru.
Þetta er jólaskapið sem ég kemst í. Ekki jólaskap að skreyta jólatréð eða gefa gjafir. Heldur að hugsa hlýtt til allra þeirra sem að þurfa á því að halda. Ég á marga óvini og er hötuð fyrir marga hluti. Allt frá því að vera treg til þess að vera með lélegt jafnvægi. En ég hugsa núna meira a segja hlýtt til þessa fólks. Vona að það læknist af reiðinni sem það ber til mín og allra annara.
Þetta er mín jólahamingja. Að sitja ein inn í herberginu mínu, stara á kertið sem brennur í stjakanum mínum, hugsa um littlu saklausu stelpuna sem að ekki var búin að uppgötva illsku heimsins og hugsa hlýlega til alls og allra.
Ég veit að þetta hljómar mjög dapurlega og einmanalega í eyrum flestra en fyrir mér eru svona stundir einar af þeim hamingjuríkustu sem að ég upplifi.
Takk fyrir mig og gleðileg jól,
LollyPolly.