Ég ákvað að taka mig til og segja frá jólunum mínum
Ég er aðeins 13 ára og því held ég mest upp á jólin og hlakka því rosalega til. Öll systkinin mín eru flutt að heiman, mamma er fyrsta árið sitt í skóla og pabbi er í hjólastól, þess vegna mun ég gera mest allt í ár. Við skreytum aldrei fyrr en 1.des og þá koma 5 jólasveinar niður af háaloftinu. Um 15.des byrjum við svo að taka allt niður af háaloftinu og ekki fyrr en 20 byrjum við að skreyta. Eldri bróðir minn kemur heim um 16. í ár og þá vona ég að við byrjum að hengja jólaljósin upp fyrr en venjulega því í fyrra þá var hengt upp jólaljósin 21. eða 22. Systir mín kemur heim um 19.des. og það er alltaf hún sem sér um að þrífa því henni finnst það beinlínis skemmtilegt. 22.des. búum við eldri bróðir minn til piparkökuhús og piparkökur og svo hjálpumst við öll að við að búa til vannillukransa og laufabrauð. Það er ekki borðuð skata hjá okkur því lyktin er svo voðaleg og mamma hefði aldrei smakkað skötu fyrr en hún kom til landsins…(meðan ég man þá eru jólin pínu dönsk hjá okkur því mamma er dönsk.) Á Þorláksmessu kemur yngri bróðir minn heim því hann þarf að vinna svo mikið og er heppinn að hann þurfi ekki að vinna á milli jól og nýárs. En Þorláksmessukvöld ( á milli 16:00 og 20:00)er án efa LEIÐINLEGASTA og LENGSTA kvöld ársins því það er ekkert að gera, jú, samt, kannski pakkar maður inn gjöfum, borðar góðan mat eða reynir að fá einhvern til að spila, en það gengur ekkert því allir eru ornir svo gamlir. En þegar við erum búin að borða þá fer allt að gerast. eldri bróðir minn fer í bæinn og verslar allar gjafirnar og ég fæ að koma með. Aðfangadagurinn rennur upp og maður vaknar annað hvort klukkan 7:00 eða 7:01 og getur ekki sofnað aftur. Ég tippla á tám til að ég vekji ekki alla fæ mér Cornflaks og mjólk og stelst í kökurnar, kveiki á sjónvarpinu og bíð þangað til að allir vakna. Þegar allir eru vaknaðir stendur tíminn í stað. Um 12 skrifar eldri bróðir minn öll kort og upp úr 2 förum við með gjafir úr í sveit og fáum hangikjöt og laufabrauð og nýtum svo ferðina í að dreifa póstkortum um allan bæ. Á meðan skreyta hin jólatréið. um 17 komum við svo heim og förum í sturtu og fín föt. Pabbi er kokkur svo hann býr til matinn og gerir hann bara meistaralega. Eftir mat förum ég og bræður mínir inn í forstofu og byrjum að bera allar gjafirnar undir jólatréið en á meðan lagar mamma og systir mín til í eldhúsinu. Svo byrjar fjörið það er alltaf sú/sá yngsti/a sem byrjar að taka gjöf og sá sem fær þá gjöf dregur næst og svo koll af kolli. Bræður mínir eru alltaf að gá hve lengi ég get vakað og ef mamma segir að ég eigi að fara að sofa leyfa bræður mínir mér það ekki… Á Jóladags morgun fá krakkarnir alltaf eina gjöf stundum bók eða eitthvað annað. Systkini ömmu bjóða öllum í mat um kl.14 og við förum alltaf.
Jájá svona eru jólin mín…