Já, mér datt í hug að skrifa hér smá pistil um jólin mín.

Á Þorláksmessu skiptast pabbi og systir hans á að halda skötu-veislu, og bjóða ömmu. Þá er alltaf pöntuð pizza líka, því að litlu frænkur mínar borða ekki skötu.

Við erum alltaf heima á aðfangadag, og bjóðum oft ömmu í heimsókn, því hún býr ein. Systir mömmu og maðurinn hennar hafa líka verið í mat hjá okkur nokkrum sinnum.
Um hádegið förum við með pakka til fólks, en oftast erum við búin að fara með flesta áður.
Við borðum oftast annað hvort kalkún eða hamborgarahrygg, og alltaf hangikjöt með. Svo gerir pabbi heimatilbúna íssósu, og mamma býr til ís.
Við opnum pakkana um 9, og ég, litla systir og pabbi skiptumst á að lesa á miðana. Eftir það fer systir mín að leika sér eða sofa eða eitthvað, og við eldri lesum kort sem okkur hafa verið send.

Á jóladag heldur amma oftast matarboð, fyrir öll systkini pabba og börnin þeirra. Það er alltaf mjög gaman, og mikið af fólki, og litlum krökkum á nammitrippi ;)
Amma eldar oftast lambalæri, sem ásamt hangikjötinu er uppáhaldið mitt.
Þarna hitti ég fólk sem ég hitti eiginlega aldrei, þannig að það er mikið spjallað og hlegið.

Um áramótin erum við oftast heima, en kíkjum stundum til systur pabba eftir miðnætti. Við sprengjum oftast, þó að pabbi segir á hverju ári að hann muni ekki kaupa neitt! En oftast kemur hann svo á gamlársdag með FULLT af rakettum. Ég læt mér nægja stjörnuljós og blys!


Í ár verða jólin öðruvísi. Ég er að fara til Ítalíu og verð þar með vini mínum og fjölskyldu hans, en þau eru öll ítölsk. Þetta eru fyrstu jólin sem ég verð ekki með fjölskyldunni minni, og fyrsta sinn sem ég verð ekki á Íslandi um jólin.
Fjölskylda vinar míns talar enga íslensku og foreldrarnir tala enga ensku.

Þau halda auðvitað ekki upp á Þorláksmessu, og vinur minn er ennþá í skólanum þá.
Á aðfangadag hafa þau góðan mat, og þau eyða öllum deginum í eldamennsku, öll fimm. Mér skilst að þau bjóði svo oftast stórfjölskyldunni í mat, en þau fara ekki í betri föt! Það finnst mér mjög sérstakt, því ég er alin upp við það að vera í mínu fínasta pússi um jólin.

Þetta verður sérstök lífsreynsla, og ég hlakka ekkert smá til. Ég verð líka á Ítalíu um áramótin.

En þetta eru semsagt jólin mín! Gleðileg jól!