Nú verður sífellt styttra til jóla og það kemur betur og betur í ljós með degi hverjum. Verslanir eru farnar að selja jólavörur og eru margar hverjar búnar að skreyta hjá sér. Ég hef meira að segja séð jólaljós í nokkrum gluggum nú þegar og finnst það bara svolítið notalegt svona í mesta skammdeginu. Jólaáhugamálið hefur smátt og smátt verið að fara í gang og fólk fer senn að huga meira og meira að jólunum, þó að sumum finnist það kannski aðeins of snemmt enn þá.
Fyrsti sunnudagur í aðventu verður þann 28. nóvember og því er um að gera að fara bráðum að spá í aðventukransa, jólaseríur og fleira í þeim dúr (munið að þetta dútl tekur allt sinn tíma).
Mig langar enn og aftur að vekja smá athygli á því að jólaáhugamálið er komið í gang og fólk er duglegt við að senda inn kannanir og þó nokkuð margar greinar og korkar hafa borist undanfarið. Ég óska helst eftir því að fólk fari nú að senda inn myndir, en ég hef sjálf verið að skipta um mynd öðru hverju en þætti gaman að aðrir sendu nú líka einhverjar. Allar jóla- og áramótagreinar eru velkomnar á áhugamálið, en vel að merkja verða þær að vera þó nokkuð langar, þ.e. greinar sem aðeins eru nokkrar línur fara á korkana.
Margir hafa sent inn svör við spurningunum um jólabarnið og munu allir sem hafa sent inn svör verða jólabörn dagsins á aðventunni eða um jólin (sjá spurningar á forsíðu áhugamálsins). Ég stefni á að byrja að setja inn jólabörn fyrsta sunnudag í aðventu. Sendið endilega inn svör og gerist jólabörn dagsins, enn eru margir dagar lausir sem bíða eftir að verða fráteknir fyrir ykkur :)
Á aðventunni hef ég ákveðið að halda jólasagnasamkeppni á áhugamálinu. Þeir sem hafa áhuga á að semja sögur geta því farið að huga að efni. Ég mun kynna þessa samkeppni frekar þegar nær dregur aðventu og vonast til þess að einhverjir hafi áhuga á að taka þátt. Þeir grunnskólanemar (og kennarar líka) sem eru í verkfalli fá hér góða hugmynd til að stytta sér stundir þessa dagana, að semja eina góða jólasögu. Athugið að þeir sem ekki vilja taka þátt í keppninni mega alveg senda inn sögu. Nefnið þá bara að hún eigi ekki að vera með. En eins og ég sagði, nánari upplýsingar og reglur síðar.
Endilega verið dugleg að semja sögur, greinar eða ljóð og senda inn.
Fyrirfram jólakveðja; Karat.