Jæja, kæru hugarar.
Það er kominn október og í dag er fyrsti vetrardagur.
Snjórinn hefur aðeins látið á sér kræla og mér finnst það alltof snemmt, en við getum víst ekki stjórnað veðrinu. Vonandi snjóar bara í fjöllunum og maður kemst á bretti. :)
En það virðist ekki bara vera snjórinn sem kemur fyrr en við áttum von á. Það á nefninlega að markaðssetja jólin snemma í ár.
Mér finnst alveg hræðilegt að geta ekki gengið inn í IKEA án þess að reka mig á jólatrén og hlæjandi jólasveinana í byrjun nóvember. Í Rúmfatalagernum er ekki hægt að þverfóta fyrir jóladóti nú þegar og það er bara október!
Ætlum við að verða eins og Ameríka, þar sem liggur við að jólaskraut sé selt á sumarútsölunum?
Þetta er jafnvel verra en í fyrra. Þá byrjaði þetta eitthvað í lok október og ég komst í brjálað jólaskap. En svo þegar það var búið að standa í heilan mánuð þá var ég eiginlega komin með nóg af því. Þannig að ég bara datt úr jólafílingnum og komst ekkert í hann aftur fyrr en 19. eða 20. desember.
Það finnst mér verulega leiðinlegt, því að ég elska jólin og finnst svo gaman að vera í jólaskapi!
Ég þoli ekki allar þessar jólauglýsingar sem byrja í byrjun nóvemeber og allt jóladótið í búðunum. Jólin koma í desember og þá ætti allt annað sem þeim fylgir að koma líka. Ég get ekki horft upp á jólin verða að söluvöru eins og hver önnur jólakúla. Mér finnst bara fáránlegt að ég geti ekki notið jólanna, bestu og fallegustu hátíðarinnar á árinu.
Jæja, þetta eru auðvitað bara mínar skoðanir og þið verðið að virða það. En endilega komið með ykkar eigin.