Núna þegar nær dregur jólum er upplagt að fara að föndra. Sumir hafa líka nógan tíma þessa dagana og geta eytt tíma sínum í t.d. að föndra eitthvað skemmtilegt. Það er vissulega hægt að kaupa sér allskonar sniðugt og skemmtilegt jólaföndur í verslunum í dag. Ýmsar búðir eru byrjaðar að auglýsa og selja jólaföndur og það er allt saman gott og blessað en stundum er líka skemmtilegt að föndra bara sjálfur frá grunni.
Mig langar til að koma með nokkrar hugmyndir að jólaföndri sem allir ættu að geta gert heima hjá sér og kostar ekki mikið að gera. Sumt af þessu er upplagt fyrir krakka og sumt er sniðugt í gjafir ef það heppnast vel.
Það er mjög sniðugt að búa til engla úr pasta. Mörg ykkar hafa örugglega heyrt um þessa engla. Maður notar pastarör í búkinn og notar pastaslaufu sem vængi. Það þarf eina litla hvíta kúlu sem haus og svo er hægt að nota hrísgrjón sem hár og makkarónur sem hendur. Þetta límir maður svo saman, helst með límbyssu. Síðan má mála engilinn eða spreyja í einhverjum lit. Ekki má gleyma að ef hengja á engilinn upp verður að líma á hann band. Þetta er rosalega sætt á jólatré.
Ekki má gleyma trölladeiginu. Það er rosalega skemmtilegt að vinna með það og ef maður er sniðugur getur maður fundið upp á ýmsu skemmtilegu til að búa til. Einu sinni þegar ég var krakki bjó ég til lítinn Jesú og jötu með stráum í. Þetta er rosalega sætt finnst mér og ég nota þetta enn þá sem jólaskraut. Ég málaði þetta svo þegar það var tilbúið. Það er líka sniðugt að nota piparkökumót til að búa ýmislegt til sem hægt er að hengja á jólatréð.
Hér er uppskrift af trölladeigi:
300 gr salt
300 gr hveiti
1 msk. matarolía
Hrærið saman salti, hveiti og matarolíu í skál.
Hrærið vatninu saman við í smá skömmtum þar til deigið er orðið að stórri kúlu.
Hnoðið deigið upp með höndunum þar til það er orðið mjúkt og teygjanlegt.
Mótið úr deginu.
Fletjið út og mótið t.d. með piparkökumótum, gerið gat á degið
til þess að hægt sé að hengja það upp.
Bakið við 180°C í 1 1/2 klst.
Stundum þarf lengri tíma, það fer eftir stærð og þykkt hlutarins.
Ef þið eigið korktappa (t.d. úr vínflöskum) þá er sniðugt að búa til borðskraut úr honum. Maður málar á hann andlit, einnig mætti nota títuprjón með lituðum haus í nefið, og síðan býr maður til húfu, t.d. úr rauðu filt efni og setur á hausinn. Og þá er maður kominn með lítinn sætan jólasvein.
Það er mjög skemmtilegt að búa til stórar jólakúlur úr vattkúlum sem má hengja upp. Þá tekur maður kúluna og sker í hana mynstur með hnífi. T.d. ferninga eða randir. Síðan tekur maður jólalega efnisbúta og treður með hnífi eða einhverju áhaldi ofan í mynstrið sem maður er búinn að gera. Þegar maður er búinn með kúluna er hægt að nota ýmsa borða eða bönd til að nota í hliðarnar hjá samskeytunum ef maður vill og eins til að hengja kúluna upp. Síðan er sniðugt að setja stjörnu eða litlar gylltar kúlur neðst á kúluna, en það er hægt að festa með títuprjóni. Það er skemmtilegt að láta nokkar svona misstórar kúlur hanga niður í lofti eða úti í glugga.
Ef þið eigið litlar tómar flöskur, t.d. undan vanilludropum er sniðugt að líma á þær einhverja límmiða, t.d. stjörnur og kaupa svo rauð kerti og þá er maður kominn með litla sæta jólakertastjaka. Einu sinni notaði ég alltaf fjóra svona undir aðventukertin mín.
Það hefur verið mjög vinsælt undanfarið að búa til alls konar myndir í þrívídd. Þá þarf maður annað hvort pappír með myndum eða servéttur. Maður þarf 3 eða fleiri eins servéttur og það er best að á þeim séu einhverjar stórar myndir, allar eins. Síðan notar maður eina myndina í grunninn og svo klippir maður út einn og einn hlut af næstu servéttum sem maður límir á með t.d. svona límkubbum og gerir suma hluti stærri en aðra á myndinni. S.s. þrívídd. Síðan getur maður þess vegna búið til ramma sjálfur og sett utan um servéttumyndina eða keypt ramma í búð.
Það er líka mjög sniðugt að búa til jólakort í þrívídd. Þá er best að nota eitthvað litað karton í grunninn og nota svo jólapappír í stað servétta. Það er mjög gott að strauja jólapappírinn aðeins til að myndirnar verði sléttari. Síðan er auðvitað hægt að búa til alls konar öðruvísi jólakort.
Ég vona að einhverjir geti notað þessar hugmyndir og skemmtið ykkur nú við að föndra :)
Kveðja; Karat.