Í dag byrjaði jólastemningin fyrir alvöru heima hjá mér. Ég og mamma fórum út að kaupa jólaskó á mig, og fundum þá. Alveg voða flottir og passa mjög vel við jólakjólinn. Þannig að nú eru fötin á sínum stað og loksins get ég farið að taka mér stöðu fyrir framan spegilinn og dansað við jólalög, en það er partur af minni árlegu jólahefð.
En svona þegar ég nefni jólalög þá fór mín ástkæra móðir í Fisketorvet til að kaupa jólageisladisk. Sá átti helst að vera fullur af gömlum dönskum jólalögum. Í stað þess keypti hún óvart jólalög með krökkum sem tóku þátt í dönsku barna-söngvakeppninni árið 2002. Hún hefði kannski átt að kíkja á hvaða lög væru á þessu, því að þá hefði hún ef til vill rekið augun í lagið “Go' jul og kort hår” með Shit Kid. Ójá þið skilduð rétt, þetta þýðir “Góð(gleðileg) jól og stutt hár” og nafn listamannsins er Skítakrakki. Einnig var þarna lagið “Rotter på loftet” en það þýðir “Rottur á háaloftinu”. Hvernig hún gat haldið að þetta væru einhver “traditional” dönsk jólalög skil ég ekki. En allir gera mistök.
Hún keypti líka jólagjafir og litli bróðir var mjög spenntur fyrir þeim. Hann fór að leita í skúffunum inn í svefnherbergi undir því yfirskini að hann væri að leita að einhverju dóti sem hann hafði týnt. Því miður vissum við ekki að hann væri að leita fyrr en hann kom með part af jólagjöfinni sinni: LOTR TTT á DVD. Ussususss sá fær kartöflu í skóinn.
Hann hefur reyndar aldrei fengið kartöflu í skóinn og samt átta ára og alger óþekktarangi ;) Ég fékk það sjálf einu sinni en þá var ég fjögurra ára (hafði verið eitthvað að grenja í búðinni). Ég vaknaði um miðja nótt - kíkti í skóinn - fann kartöfluna - henti henni í ruslið. Svo sagði ég við mömmu og pabba daginn eftir að ég hefði ekki fengið neitt!
En ég er allavegana komin í jólaskapið og ég vona að þið séuð það líka!
Gleðileg jól!
Tobba3