Nú er innan við mánuður til jóla og margir farnir að bíða með óþreyju eftir þessari stærstu hátíð okkar Íslendinga.
Það er þó eitt sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér síðasta mánuðinn eða svo - Hver er tilgangur þess að lengja jólin alltaf meira og meira?
Ég las grein í Morgunblaðinu þar sem höfundur vildi meina að það væri alveg sjálfsagt að lýsa upp þessa þyngstu mánuði hér á klakanum og að jólaljósin hefðu með sér ákveðinn sjarma. Ekki ætla ég að þræta fyrir það en það hlýtur að vera hægt að nota aðra lýsingu ef fólk finnur fyrir skammdegisþunglyndi en jólaseríur.
Mér finnst að við ættum að halda í sérstöðu jólanna. Mér finnst vægast sagt sorglegt að vera farin að sjá fyrstu jólaauglýsingarnar um miðjan október og enn verra að í einu og einu húsi er búið að þekja allt jólaseríum í nóvember-byrjun. Það er eins og kynslóð smábarnanna sé að vaxa úr grasi. Þeir sem ekki fengu að hafa jólaseríur allan ársins hring þegar þeir voru börn eru að rasa út núna.
Persónulega finnst mér að jólin ættu bara að vera þennan eina og hálfa mánuð, frá byrjun aðventu og fram yfir þrettánda. Annars týnist þetta bara og verður leiðigjarnt.
Ég ætla mér nú samt ekki að ákveða hvað er rétt og hvað ekki svo ég vil endilega heyra álit sem flestra.