Sælir Hugarar!
Í ár eru fyrstu jólin sem ég verð ekki heima hjá mér, þ.e.a.s. heima hjá pabba og mömmu (ég bý reyndar ekki hjá þeim lengur). Nú er ég 21 árs og verð heima hjá fjölskyldu kærastans míns yfir jólin. Við erum búin að vera saman í 4 og hálft ár og höfum aldrei verið saman á jólunum, svo við gerðum málamiðlun; heima hjá honum um jólin, heima hjá mér um áramótin.
Ég verð að viðurkenna að ég kvíði fyrir því að vera ekki hjá pabba og mömmu um jólin, gera hlutina ekki eins og venjulega, í sömu röð og venjulega og síðast en ekki síst, ekki borða það sama og venjulega (ég missi af rjúpunum hjá pabba og mömmu *skæl*). Fyrir utan það að ég kvíði sjálf fyrir þá hef ég líka verið vöruð við því að fyrstu jólin manns að heiman séu hræðileg, maður sé dapur og neikvæður yfir því að allt sé öðruvísi.
Til að toppa allt þá verður líka tvennt nýtt um jólin: skötuveisla á Þorláksmessu og messa á aðfangadag. Ég hef aldrei farið í skötuveislu og, án þess að hafa neitt á móti Guði eða trúuðum, þá hef ég aldrei verið hrifin af því að fara í kirkju, hef aðallega farið þangað til að fara í jarðafarir, svo að kirkjur vekja ekki upp neitt gasalega góðar minningar hjá mér.
Ég er nú reyndar frekar hissa á því hvað það er neikvæður tónn í þessari grein hjá mér, því þó ég kvíði fyrir, þá er ég líka ákveðin í að láta þetta bara vera skemmtilegt, það er náttúrulega aðallega (eingöngu) hugarfarið mitt sem hefur áhrif á það hvernig þetta verður.
Endilega segið frá ykkar reynslu af fyrstu jólunum ykkar að heiman og líka ykkar fyrstu “eigin” jólum :)
Eva