Handknattleiksdeild FH hefur sagt upp samningum allra leikmanna meistaraflokks félagsins, bæði í karla og kvennaflokki. Formaðurinn segir aðgerðina nauðsynlega enda standi handknattleiksdeildin illa fjárhagslega. Talað er um að deildin skuldi 40 milljónir
Stjórn handknattleiksdeildar FH gerði sér lítið fyrir á dögunum og nýtti uppsagnarákvæði í samningum leikmanna félagsins. Allir leikmenn félagsins, bæði í karla og kvennaflokki, eru því án samnings og í raun frjálst að semja við hvaða lið sem er.
„Ef við ætluðum að segja upp samningum við leikmenn varð það að gerast fyrir 15. apríl og þetta er varúðarráðstöfun hjá okkur því ef við lendum í neðri hlutanum í karlaboltanum er ljóst að tekjurnar munu minnka stórlega og ekki víst að við getum í kjölfarið staðið við gerða samninga. Rekstrarumhverfið í neðri deildinni er þess eðlis að það væri ekki ábyrg fjármálastjórnun hjá okkur að grípa ekki til þessara aðgerða núna. Ef við hefðum ekki gert þetta þá hefði deildin einfaldlega farið á hausinn næsta vetur að því gefnu a við leikum í neðri hlutanum,“ sagði Örn Magnússon, formaður handknattleiksdeildar FH, við Fréttablaðið í gær en félagið sagði ekki upp samningum við þjálfara liðanna, þá Atla Hilmarsson og Kristján Halldórsson.
„Við verðum að gera hlutina öðruvísi ef við lendum í neðri hlutanum og munum semja á þeim forsendum sem liggja fyrir í lok tímabilsins. Þetta er ekki gert samt bara fyrir okkur heldur erum við einnig að gera þetta fyrir leikmenn því það er ekkert víst að allir leikmenn liðsins vilji spila í neðri hlutanum næsta vetur,” sagði Örn sem neitar því ekki að skuldastaða félagsins sé mjög slæm og að reksturinn sé þungur. Fréttablaðið hefur heyrt að deildin skuldi í kringum 30 milljónir króna en Örn vildi ekki staðfesta þá tölu. „Ég held að það sé orðum ofaukið en skuldastaðan er vissulega slæm og í endurskoðun. Ég vil ekki segja hver skuldastaðan er nákvæmlega en hún er erfið.
“
Örn segir að það sé enginn dans á rósum að reka handknattleiksdeildina sem sé í samkeppni við Íslandsmeistara Hauka í handbolta og Íslandsmeistara FH í fótbolta um styrktaraðila og annað. Þó staðan sé slæm á Örn samt ekki von á því að stjórnin muni stökkva frá borði fari svo að liðið lendi í neðri hlutanum.
„Það er engan bilbug á okkur að finna en þetta er erfitt þar sem allur tíminn fer í að leita að peningum. Við erum að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni núna en við trúum því að við verðum samt í efri hlutanum. Félag eins og FH á ekki að vera í svona basli og vonandi náum við úrvalsdeildarsæti því FH á heima á meðal þeirra bestu,” sagði Örn.